Fyrsta verksmiðjan í heiminum sem framleiðir flugnamjöl fyrir almennan markað mun taka til starfa í Suður-Afríku. AgriProtein, fyrirtækið sem reisir verksmiðuna, segist slá tvær flugur í einu höggi. Það leysi af hólmi rándýrt fiskimjöl með ódýrari próteingjafa auk þess sem þeir nýti úrgang sem annars þarf að farga með tilheyrandi kostnaði.

Í verksmiðjunni geta verið um 8,5 milljarðar flugna sem skila um 22 tonnum af lirfum daglega. Samið hefur verið við sorphirðu Höfðaborgar um að sjá þeim fyrir úrgangi frá borgarbúum.

Þetta gengur þannig fyrir sig að venjulegar flugur verpa eggjum sínum í ruslið. Eggin breytast brátt í lirfur sem éta ruslið um leið og þær auka þynd sína hratt og örugglega. Reiknað hefur verið út að eitt kíló af eggjum verði að 380 kílóum af lirfum á aðeins þremur dögum. Lirfurnar eru síðan gripnar á réttum tíma, þvegnar og pressaðar í mjöl sem notað er í fóður.

AgriProtein hefur aflað um 11 milljóna dollara til að bygga fyrstu tvær verksmiðjurnar. Hver verskmiðja rúmar 8,5 milljarða flugna eins og áður sagði en reiknað er með því að alls verði reistar 40 verksmiðjur að þessari stærð. Í fréttinni kemur fram að þótt framleiðsla á flugnamjöli hafi verið samþykkt af þar tilbærum yfirvöldum í Suður-Afríku er ennþá ekki heimilt að flytja mjölið til Evrópu. Innflutningur á mjöli til Evrópu sem unnið er úr kjöti er bannaður. Flugnamjölið fellur undir þann flokka.