Framleiðsla á eldisfiski hér við land gæti áttfaldasta á næstu árum verði fallist á fyrirliggjandi umsóknir um fiskeldi. Sérfræðingar telja að þörf sé á heildstæðu mati á mögulegum áhrifum slíkrar aukningar. Þetta kom fram  á RÚV. Í fyrra var slátrað um 8.300 tonnum af eldisfiski og framleiðslan í ár stefnir í að vera í kringum 11 þúsund tonn.

Samkvæmt skýrslu atvinnuvegaráðuneytisins höfðu verið gefin út gild rekstrarleyfi fyrir 33 þúsund tonna framleiðslu í nóvember 2013. Þar af um 15 þúsund tonn á Vestfjörðum og 18 þúsund tonn á Austfjörðum. Landssamband fiskeldisstöðva hefur gefið út að stefnt skuli að 110 þúsund tonna framleiðslu árið 2050.

Fréttastofa RÚV hefur eftir sérfræðingum hjá umhverfis-, matvæla- og skipulagsstofnun, sem og hjá Landssambandi Fiskeldisstöðva að ástæðu sé til að skoða þessi áform heildstætt, umhverfis sem og samfélagsáhrif. Umfang þeirra sé slíkt og það sé hagur allra aðila.

Hafrannsóknastofnun metur nú, á grunni nýrra laga um fiskeldi, burðarþol fjarða. Niðurstöður og bráðabirgðatölur liggja fyrir á nokkrum stöðum. Burðarþol Patreksfjarðar og Tálknafjarðar er metið 20.000 tonn, Dýrafjarðar 10.000 tonn og Arnarfjarðar 20.000 tonn.