„Þetta er úrvalshráefni sem við erum með allt í kringum okkur. Það er bara að vinna úr því,“ segir Ómar Fransson, sem rekur fyrirtækið Sólsker á Höfn í Hornafirði og framleiðir þar sannkallað sælkerafæði á borð við reyktan makríl og reyktan lax, graflax, makrílpaté og heitreykt þorskhrogn.

Framleiðslan er seld meðal annars hjá Frú Laugu í Reykjavík og á veitingastöðum, auk þess sem Ómar sjálfur selur vörur sínar í Matarsmiðjunni á Höfn, þar sem hann hefur leigt aðstöðu af Matís. Hann hefur einnig nýtt tækifærið þegar haldinn hefur verið matarmarkaður í Hörpu og víðar til að kynna vörurnar sínar.

„Þetta hefur alls staðar mælst vel fyrir. Mesta salan nú orðið er í reykta laxinum og graflaxinum. Ég var með reyktan og grafinn regnbogasilung en þeir eru hættir með hann á Djúpavogi. Laxinn er tekinn við.“

Byrjaðir að rumska
Nýverið fékk hann gullverðlaun fyrir grafna laxinn og silfur fyrir reykta laxinn, og hefur áður hlotið verðlaun fyrir sælkeravörur sínar sem notið hafa vaxandi vinsælda.

„Ég búinn að vera að fikta við þetta í ein sjö ár sennilega. Þetta hafa verið einhver hundruð kíló á hverju ári og það er alltaf meira um að menn taki þetta inn á veitingastaði. Menn eru eitthvað byrjaðir að rumska.“

Árið skiptist hjá Ómari nokkurn veginn í tvo hluta. Þegar vora tekur heldur hann til veiða á bátnum sínum, Sævari, byrjar að róa í maí eða júní og hefur verið að fram í október. Á veturna snýr hann sér síðan að því að reykja, bæði makríl og lax og þorskhrogn. Afraksturinn er margverðlaunuð sælkerafæða sem hann hefur selt víða.

„Reykti makríllinn er þekkt lúxusvara á Norðurlöndunum,“ segir Ómar sem nýlega var á ferð í Kaupmannahöfn og rakst þar á sams konar vöru og hann framleiðir í matarmarkaðnum í Torvehallerne.

„Þar kostaði þessi vara 17 þúsund krónur kílóið.“

Matarsmiðjan lokar
Hann hefur haft aðstöðu í Matarsmiðju Matís á Hornafirði, þar sem hann hefur haft aðgang að vel búnu eldhúsi til framleiðslunnar.

Matarsmiðjan hefur starfað á Hornafirði síðan 2008 til að styðja við smærri fyrirtæki og frumkvöðla í matvælaframleiðslu úr íslensku hráefni. Mörg lítil fyrirtæki á Hornafirði og nærsveitum hafa nýtt sér þessa aðstöðu til að koma sér á laggir.

„Ég hef leigt af þeim aðstöðuna. Hún hefur verið alveg prýðileg,֧“ segir Ómar.

Hann hafði í nógu að snúast þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann í dymbilvikunni. Það er alltaf nóg að gera hjá honum fyrir bæði páskana og jólin, þegar fólk flykkist til hans að kaupa sælkeravörurnar fyrir hátíðarnar.

„Það er brjálað að gera núna, já. Í morgun var ég með 35 manna hóp frá Úkraínu og svo hef ég verið í Nettó að selja eftir hádegið.“

Eftir páskana er rólegra og verkefnið núna er að flytja starfsemina yfir í gamla sláturhúsið.

„Matarsmiðjan er að loka og við erum að flytja upp í sláturhús. Það verð ég í samstarfi við bæinn, leigi þar húsnæði og verð með starfsemina þar.“