Gera má ráð fyrir að þær afurðir, frystar eða ferskar, sem unnar voru úr þorski hjá landvinnslu Samherja við Eyjafjörð vikuna 3. til 9. október, nægi í rúmlega tvær milljónir máltíða. Að auki munu þurrkuðu afurðirnar væntanlega nægja í eina máltíð fyrir 1-2 milljónir manna.

Þessa sömu viku framleiddi Samherji 115 tonn af ferskum þorskhnökkum. Sá fiskur var nær allur veiddur af togskipum Samherja. 110 tonn af þorskhnökkum voru flutt fersk til Frakklands. Gera má ráð fyrir að um 600.000 Frakkar (m.v. að hver skammtur sé 185 g) hafi borðað þessa afurð. Ólíklegt er að önnur fyrirtæki hafi fengið jafnmarga Frakka til að borða ferska þorskhnakka á einni viku, segir á vef Samherja, þar sem þessar upplýsingar koma fram.

Landvinnsla Samherja vann úr 12.500 tonnum, aðallega þorski, á síðasta fiskveiðiári. Á sama tíma var um borð í frystiskipum Samherja unnið úr 1.200 tonnum af þorski sem veidd voru innan íslenskrar lögsögu. Á yfirstandandi fiskveiðiári er gert ráð fyrir að vinna úr talsvert meira magni í landvinnslum þar sem Samherji keypti ÚA fyrr á árinu.