Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti á föstudaginn um að farið yrði fram á verulegan niðurskurð á þorskkvóta, allt að 25% á nokkrum svæðum, á næsta ári, að því er fram kemur á vef IntraFish.
Haft er eftir háttsettum mönnum innan ESB að sígið hefði á ógæfuhliðina á síðasta ári þar sem meira var veitt úr fiskstofnum sem standa höllum fæti í Norðursjó, austurhluta Ermarsunds og í Skagerrak en nokkurt annað ár undanfarinn áratug.
Ástandið er talið vera það slæmt að framkvæmdastjórnin vill ganga lengra í niðurskurði en sem nemur þeim 15% sem höfð eru til viðmiðunar fyrir hámarksniðurskurð milli ára. Lagt er til að niðurskurðurinn verði allt að 25% á þeim svæðum þar sem ástandið er talið vera verst.
Óskir framkvæmdastjórnarinnar verða ræddar á fundi 27 ESB-ríkja um miðjan desember næstkomandi þegar ákvarðanir um kvóta ársins 2010 verða teknar.
Á áttunda áratugnum fór þorskveiðin í Norðursjó, Ermarsundi og Skagerrak yfir 250 þúsund tonn á ári, en hún nær nú varla 50 þúsund tonnum á ári þrátt fyrir ýmsar aðgerðir til verndar stofninum. Þá hafa menn miklar áhyggjur af því að stóra hrygningarfiskinn vantar í stofninn og nýliðun frá árinu 2005 hefur verið lítil.
Heimild: IntraFish.