,,Þorskurinn er verðmætasta fisktegund okkar og því eru það afar jákvæðar fréttir að heildarvísitala þorsksins mældist 20% hærri en í fyrra," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, um niðurstöður haustralls Hafrannsóknastofnunarinnar sem kynntar voru í vikunni, að því er fram kemur á vef LÍÚ. Þá segir hann mjög mikilvægt að vísitölur fyrir eins árs og tveggja ára þorsk, þ.e. árganganna frá 2008 og 2009, mældust þær hæstu frá því að stofnmælingar að hausti hófust árið 1996. Þessir árgangar koma inn í viðmiðunarstofninn 2012 og 2013.
Friðrik segir vísbendingarnar um árgangana frá 2008 og 2009 afar mikilvægar eftir sjö lélega árganga þar á undan. „Til að byggja upp þorskstofninn hafa útvegsmenn tekið á sig mikla skerðingu í aflaheimildum á undanförnum árum. Nú þegar forsendur eru til þess að auka veiðar eiga þeir sem tóku á sig skerðingu að sjálfsögðu að njóta þess," segir Friðrik.
Í tilkynningu Hafrannsóknastofnunarinnar í gær segir m.a. um niðurstöður haustrallsins: „Heildarvísitala þorsks hækkaði um rúm 20% frá árinu 2009. Er vísitalan sú hæsta frá 1996 er farið var í fyrstu stofnmælinguna . Hækkun vísitölunnar í fjölda er í góðu samræmi við áætlanir frá því í vor, en þyngdaraukning er aðeins meiri en áætlað hafði verið. Lengdardreifing þorsks í ár samanborið við meðaltal áranna 1996-2009 sýnir að meira er af þorski stærri en 80 cm og er það í samræmi við stofnmælinguna árið 2009. Þetta kemur einnig fram í aldursskiptum vísitölum sem sýna að s.l. 3-4 ár hefur fjöldi 8-11 ára þorsks farið vaxandi Aldursskiptar fjöldavísitölur árganga í viðmiðunarstofni (4 ára og eldri) eru í nokkuð góðu samræmi við stofnmatið, sem kynnt var í Ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar í júní síðastliðnum."