Nú er unnið af krafti að gerð minningareits á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum í lok sumars og er miðað við að unnt verði að vígja reitinn um verslunarmannahelgina, að því er segir í frétt Síldarvinnslunnar.
Framkvæmdirnar eru í umsjá Geirs Sigurpáls Hlöðverssonar og byggja þær á útfærslu Landmótunar á verðlaunatillögum um gerð minningareitsins.
Í umfjöllun heimasíðunnar segir í tilefni 60 ára afmælis Síldarvinnslunnar árið 2017 var ákveðið að láta gera minningareit sem helgaður yrði þeim sem látið hafa lífið í störfum hjá fyrirtækinu. Ætlunin var að minningareiturinn yrði fallegur og friðsæll staður sem fólk myndi njóta að heimsækja. Var reitnum valinn staður á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974. Á grunninum stendur enn gamall gufuketill úr verksmiðjunni og var gert ráð fyrir að hann yrði hluti minningareitsins.
Árið 2018 var efnt til samkeppni um útfærslu á reitnum og bárust átta tillögur um gerð hans. Tillaga Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar bar sigur úr býtum en mat dómnefndar var að einnig skyldi tillaga Ólafíu Zoëga hljóta verðlaun. Landmótun hefur síðan útfært tillögurnar.
Geir Sigurpáll Hlöðversson segir að framkvæmdir við minningareitinn gangi samkvæmt áætlun. Lokið er við að koma upp fimm stálskjöldum en í þá hafa verið skorin myndverk ásamt sögulegum texta og upplýsingum um þá menn sem látið hafa lífið í störfum hjá fyrirtækinu. Það var Vélsmiðjan Hamar sem sá um að útbúa stálskildina. Allar framkvæmdir við jarðvinnu, hellulögn og gerð svæðisins eru höndum fyrirtækisins Brústeins ehf. og hefur þeim miðað vel.