Stolt Sea Farm Iceland hf. hefur í hyggju að bæta aðstöðu í fiskeldisstöð sinni að Vitabraut 7 á Reykjanesi. Fyrirtækið áformar að reisa tjaldskemmu yfir starfsemi sem nú fer fram utandyra á steyptu plani við vesturhorn lóðarinnar.

Í skemmunni verður sinnt ísun og þvotti á eldisfiski en markmið framkvæmdarinnar er að bæta vinnuaðstöðu starfsfólks og tryggja skjól gegn veðri og öðrum ytri aðstæðum. Sagt er frá þessu í Víkurfréttum.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti erindi fyrirtækisins á fundi sínum með fyrirvara um grenndarkynningu, án athugasemda. Þar sem um litla breytingu á deiliskipulagi er að ræða, sem ekki hefur teljandi áhrif utan lóðar, verður málið unnið samkvæmt einfölduðu ferli skv. 43. grein skipulagslaga.

Stolt Sea Farm Iceland er dótturfélag Stolt-Nielsen sem stofnað var af Norðmanninum Jacob Stolt-Nielsen árið 1959 og er umsvifamikið í skiparekstri og fiskeldi víða um heim. Á Reykjanesi hefur Stolt Sea Farm alið senegalflúru allt frá árinu 2014. Árið 2023 nam framleiðslan 250 tonnum. Í fyrra voru flutt út 558 tonn af óslægðum fiski. Flúran er verðmætur matfiskur. Hún er hlýsjávarfiskur og nýtir fyrirtækið sér kælivatn frá virkjun HS Orku við hlið fiskeldisins til að halda á fiskunum kjörhitastigi, sem er um 23°C.