Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til að samþykktar verði heimildir til refsiaðgerða gagnvart löndum sem ekki stunda fiskveiðar á sjálfbæran hátt. Tilefnið er makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga þótt ekki sé það nefnt sérstaklega.

Í fréttatilkynningu segir að málið snúist um að takmarka innflutning á fiski úr veiðum sem ekki séu stundaðar á sjálfbæran hátt og einnig öðrum fiski frá viðkomandi löndum. Einnig geti aðgerðirnar náð til flutningsaðila sem flytji slíkan fisk til ESB-ríkjanna. Auk þess segir að lögð sé áhersla á  að virða alþjóðalög.

Haft er eftir Maríu Damanaki sjávarútvegsstjóra ESB að hér sé um stefnumarkandi mál að ræða. Ef tillagan hljóti samþykki Evrópuþingsins og aðildarríkjanna muni ESB fá í hendur öflugt og löglegt tæki til þess að tryggja stjórnun á veiðum úr fiskistofnum sem sambandið deili með öðrum löndum.

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ segir í samtali við Morgunblaðið í dag að Íslendingar hafi ekkert að óttast í þessu máli enda myndu refsiaðgerðir af þessu tagi brjóta í bága við alþjóðlegar skuldbindinga ESB. ,,Íslendingar hafa sama rétt til þess að stjórna veiðum á makríl innan íslensku lögsögunnar og ESB innan sinnar lögsögu. Það er síðan sameiginlegt verkefni okkar að ná  samkomulagi um stjórn veiða," segir Friðrik.