Sjónvarpsstöðin N4 hefur gert sex myndbönd um öryggismál starfsfólks í fiskvinnslu en yfirskrift myndbandanna er Öryggi er allra hagur.

Myndböndunum er ætlað að vera fræðandi og benda á mikilvægi þess að allir sem koma að vinnslunni séu meðvitaðir um að öryggis- og hreinlætismál séu í góðu lagi.

Rannsóknarsjóður síldarútvegsins styrkti gerð myndbandanna og sérfræðingar Vinnueftirlitsins veittu faglega ráðgjöf og þekkingu.

Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, fagnar myndböndunum og segir í fréttatilkynningu:

„SFS og ýmis fiskvinnslufyrirtæki hafa verið að gera ráðstafanir til að auka öryggi fiskvinnslufólks við sín störf og þetta fræðsluefni er mikilvægt skref í þá átt.“

María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4, segir að framleiðsludeild N4 hafi á að skipa hæfu fagfólki sem kunni vel til verka í gerð fræðslumyndbanda, og í þessu tilfelli hafi verið byggt á  ákveðinni sérþekkingu starfsfólks N4 úr sjávarútvegi og fiskvinnslu.

„Það er mikilvægt að fyrirtæki í fiskvinnslu bregðist við auknum fjölda vinnuslysa í fiskvinnslu á síðustu árum með aukinni fræðslu í vinnuvernd en komið hefur í ljós að slysin tengjast oftar en ekki vélbúnaði. Það er hagur allra. ÚA veitti okkur aðgang að fiskiðjuveri sínu á Akureyri, þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar í öryggismálum og vinnuvernd.“

Myndböndin verða aðgengileg á heimasíðu N4 og einnig á heimasíðu Vinnueftirlitsins.