„Mér datt bara í hug að prófa þetta. Það var enginn bakgrunnur í minni fjölskyldu í sjómennsku eða neitt þess háttar,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson skipstjóri, spurður um hvað varð til þess að hann tók þá ákvörðun að fara á sjóinn, ungur maðurinn.
Þetta var árið 1971. Ellert ekki orðinn tvítugur og fékk pláss á Þormóði Goða RE 209, einum af síðutogurunum sem Bæjarútgerð Reykjavíkur gerði út á sínum tíma. Um þetta leyti voru síðutogarnir að syngja sitt síðasta.
„Skuttogararnir komu hver af öðrum rétt seinna,“ segir Ellert, en hann notar sjaldnast Jóhannesarnafnið.
Eftir Þormóð goða fór hann á Bjarna Benediktsson, einn af skuttogurunum sem Bæjarútgerðin keypti nýjan til landsins á áttunda áratugnum.
„Ég fór svo í Stýrimannaskólann á einhverjum tímapunkti og var svo annar stýrimaður á Jóni Baldvinssyni, var á honum skipstjóri þegar honum var lagt og hann síðan seldur til Chile. Þá fór ég yfir á Ottó. Var á honum þangað til ég fór á Viðey, og var þá orðinn sá skipstjóri sem var búinn að vera lengst á honum þegar upp var staðið.“
Langt fram úr væntingum
Sjómennskan varð þannig að ævistarfi Ellerts. Hann er nýhættur eftir meira en hálfa öld á sjónum. Síðustu árin hefur hann verið skipstjóri á Viðey RE 50, einu af fullkomnustu veiðiskipum sem Íslendingar hafa eignast. Breytingin frá fyrri togurum var ótrúlega mikil.
„Það fór langt fram úr væntingum hvað þetta eru mikil viðbrigði. Mannskapurinn segir að nú gætu þeir ekki farið til baka á togara með mannaða lest, þetta væri svo mikill munur. Allt aðgengi líka er miðað við að það sé gott að ganga um þetta. Þetta er ævintýri út af fyrir sig.“
Hann segir skipið hafa reynst vel í alla staði.
„Það ver sig vel, er gott í vondum veðrum. Þetta stefni gefur svo mikið flot á framan þannig að þau stinga sér mikið minna, og það fer vel um mann þó það sé vont veður. Þetta er mikil framför á þessum skipum miðað við það sem á undan var.“

Viðey RE kom ný til Reykjavíkurhafnar í desember 2017. Hún var síðasti ísfisktogarinn í þriggja skipa raðsmíðaverkefni HB Granda, eins og fyrirtækið hét þá, en árið áður tók félagið við ísfisktogurunum Engey RE og Akurey AK. Þessi þrjú skip voru öll smíðuð í skipasmíðastöðinni Céliktrans í Tyrklandi, rétt eins og uppsjávarveiðiskipin Venus NS og Víkingur AK sem komu til landsins fáum árum áður.
Skipin eru búin öllum nýjasta búnaði og í reynd búið að taka burt öll erfiðustu störfin. Störfin felast að meira eða minna leyti í eftirliti og vinna í lest heyrir sögunni til. Þegar skipin komu til landsins var fyrirfram vitað að það tæki sinn tíma að láta nýjan búnað virka eins og til er ætlast, en Ellert segir það aldrei hafa valdið neinum erfiðleikum um borð í Viðey.
„Þetta hefur virkað frá fyrsta degi hjá okkur. Það komu náttúrlega tvö á undan og þá voru þeir búnir að finna út hvað þurfti að bæta, og það var í sjálfu sér sáralítið.“
Tæknin flýgur áfram
Tækniþróun síðustu ára hefur verið hröð í sjávarútvegi, og Ellert sér ekki fram á að neitt lát verði á henni á næstunni. Spurður um hver hann telji geta orðið næstu skref í þeirri þróun, þá segir hann blasa við að fiskileitartækin verði þróuð áfram og endurbætt mikið.
„Menn eru alltaf að láta sér detta eitthvað nýtt í hug. Við erum komin með tæki sem greinir tegundirnar sem þú átt að veiða. Þegar maður er að setja niður fiskinn þá fer hann í gegnum skynjara þar sem verið er að flokka hann og hann er mældur, og þá geta þeir gefið sér hvað hann er þungur. Ef þú tækir saman allt sem fer í gegnum skynjarann hjá okkur áður en hann fer niður í lest, þá væri nákvæmnin innan við 5% í skekkju hvað hann er þungur. Hann er lengdarmældur og svo flokkað kannski undir þúsund grömmum og þá kemur það sér. Svo flokkast sér ýsa og þorskur og ufsi. Þetta er allt notað dags daglega hjá okkur. Ég held þetta hætti ekkert.“
„Það eina er að ef eitthvað kemur upp á þarf að vera með góðan hraða á internetinu ef þarf að hafa samband til að láta lagfæra eitthvað, það er allt gert í gegnum internetið.“
Í grunninn hefur hann verið hjá sömu útgerðinni alla tíð, þótt hún hafi breytt um nafn og eigendur.
„Fyrst var þetta Bæjarútgerðin, síðan var þetta Grandi, og þeir sameinuðust. Síðan voru alltaf einhverjar sameiningar og alltaf einhverjar breytingar, en í sjálfu sér hafði það engin áhrif á okkur sem vorum að vinna þó eignarhaldið breyttist eða eitthvað. Það var alltaf sama markmiðið hjá þeim sem keyptu eða stjórnuðu. Nema, eins og ég segi, í tímans rás hafa gæðakröfurnar aukist, kröfur um að hafa alltaf góðan fisk. Allur aðbúnaður er alltaf að verða betri og betri.“

Ellert hefur í raun fylgt sama fyrirtækinu allar götur frá því Bæjarúgerð Reykjavíkur gerði út Þormóð goða. Bæjarútgerðin sameinaðist Ísbirninum árið 1985 og eftir það hét félagið Grandi hf. Nærri tuttugu árum síðar sameinaðist Grandi Haraldi Böðvarssyni og hét eftir það HB Grandi. Nú heitir félagið Brim hf. og á þessum fimmtíu árum rúmum sem Ellert hefur starfað hjá félaginu hafa fleiri fyrirtæki verið tekin inn í félagið en þau sem hér hafa verið nefnd.
Engar svaðilfarir
Allan þennan tíma til sjós man hann ekki til þess að hafa lent neinum í alvarlegum hremmingum eða miklum erfiðleikum.
„Maður hefur nú alltaf tilhneigingu til að gleyma öllum leiðindum sem allra fyrst, en ég minnist þess nú ekki að hafa lent í neinum svaðilförum. Sem betur fer.“
Hann segir tímann hafa liðið hratt þessa hálfu öld rúma sem hann hefur verið til sjós. Ætíð hafi hann kunnað vel við sig. Margt hafi hins vegar breyst og þá helst til hins betra.
„Allt í kringum þessa útgerð til sjós og lands hefur breyst mikið, hvort sem það er meðferð á fiski eða annað. Og verðin hafa alltaf hækkað, þannig að það hafa alltaf verið góðar tekjur. Þó þær hafi kannski aðeins skrykkjóttar þá hafa þær verið góðar.“
Áhersla á gæðin
Kröfurnar sem gerðar eru hafi sífellt orðið meiri, og svoleiðis hafi það verið allan tímann, meira og minna.
„En núna allra síðustu árin, kannski svona tíu ár eða svo hefur þetta farið úr því að menn hugsi bara um magnið yfir í að veiða frekar ákveðnar tegundir og hafa þá gæðin í lagi. Það var kannski ekki verið að vanda eins og gert er í dag með frágang og annað. Fiskurinn batnar ekkert eftir að hann er veiddur.“
Með þessu hafi líka náðst meiri verðmæti úr aflanum.
„Það má segja kannski að með kvótakerfinu hafi þetta smám saman breyst til batnaðar. Ég held það sé alveg óhætt að segja það. Svo hefur þetta bara aukist. Alltaf þegar verður samdráttur í einhverri tegund þá þarf að hafa meira út úr því, svo helst það bara.“
Með gott lið
Ellert hefur löngum þótt fiska vel, verið naskur á að finna gjöful mið. Hann vill þó ekki þakka árangurinn sér einum.
„Ég held að það sé bara svo margt sem spilar inn í. Maður er í liði með öðrum, kannski liðstjóri þegar maður er skipstjóri. Þegar maður hefur gott lið þá er það bæði fyrirtækið og áhöfnin og allt sem þarf að haldast í hendur, held ég. Þegar þú ert með góðan búnað í höndunum og alltaf með besta af öllu þá skilar það sér fyrir rest.“

Með tímanum hafa líka áherslur í veiðunum breyst.
„Fyrst var áherslan á karfa og ufsa, og aðeins þorsk með. Svo hefur þetta breyst og áherslan verið meiri á þorsk, svo karfa og náttúrlega ufsi. En karfinn hefur breyst í meðafla vegna þess að búið er að skera kvótann niður. Svo ýsan náttúrlega verið breytileg, stundum höfum við verið að veiða ýsu og stundum hefur hún bara verið meðafli. Það er eiginlega allt orðið meðafli í dag, þannig. Það þarf að veiða þetta allt saman. En svona í seinni tíð er maður náttúrlega mikið meira á þorski en var þegar maður byrjaði sem skipstjóri, manni finnst það nú ekkert líkt.“
„Svo hefur þetta breyst líka hvar við sækjum aflann, það er meira orðið norður frá heldur en var. Það hefur skeð svona hægt og bítandi og við höfum þá trú að það tengist bara þessari náttúrubreytingu, að sjórinn sé orðinn of hlýr fyrir fiskinn. Þá færist hann norðar. En á veturna er hefðbundið vertíðarsvæði fyrir sunnan og vestan land ennþá. Svo byrjuðu loðnuveiðarnar um og upp úr 1970 og þá hefur það áhrif líka, af því þetta er allt í svo miklu samspili í hafinu.“

© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)