Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að það sé ofmat ársins að Íslendingar geti orðið leiðandi í sjávarútvegi innan ESB. Hann lét þessi orð falla í  ræðu sem hann hélt á fundi í morgun sem Matís og fleiri aðilar stóðu að þar sem fjallað var um tækifæri í íslenskum sjávarútvegi.

Þorsteinn kynnti starfsemi Samherja allt frá veiðum að markaðsmálum. Hann sagði að Norðmenn væru okkar helstu keppinautar á mörkuðum. Þorsteinn gat þess að ólíkt hefðust þau að stjórnvöld á Íslandi og stjórnvöld í Noregi í samskiptum við sjávarútveginn. Hann sagði að formaður “Samfylkingarinnar” í Noregi Jens Stoltenberg forsætisráðherra hefði sótt sjávarútvegsráðherra utan þings sem á rætur sínar að rekja í sjávarútvegi. Hér er um að ræða Lisbeth Berg-Hansen sem hefur m.a. verið stjórnarmaður í Aker Seafoods ASA, stærsta útgerðarfyrirtæki Noregs. Hún er einnig meðeigandi og stjórnarmaður í laxeldisfyrirtækinu Sinkaberg-Hansen AS.

,,Ég tel afskaplega ólíklegt að Jóhanna Sigurðardóttir bjóði mér að verða sjávarútvegsráðherra,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn nefndi einnig að Samherji starfaði í fjölda Evrópuríkja utan Íslands. Hann sagði að helsti munurinn væri sá að erlendis ætti Samherji í góðum samskipti við embættismenn og stjórnvöld og litið væri jákvæðum augum á starfsemi þeirra. Hér á landi væri Samherji og  íslensk sjávarútvegsfyrirtæki algerlega hundsuð af ráðamönnum.

Þorsteinn vék einnig að hugsanlegri aðild Íslands að ESB. Hann velti því fyrir sér hvernig íslensk stjórnvöld ætluðu að haga viðræðum við aðrar þjóðir um sjávarútvegsmál þegar þau gætu ekki einu sinni átt eðlileg samskipti við greinina innanland. ,,Ég sé ekki fyrir mér að Ólína Þorvarðardóttir og Árni Páll Árnason gætu til dæmis farið til Póllands til að tala máli okkar í sjávarútvegi,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn benti á það að ef Ísland gengi í ESB hefði það væntanlega um 1% atkvæða innan þess. Í ljósi þess og samskiptaleysis ráðamanna við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sagði hann fráleitt að Íslendingar gætu gert sér vonir um að verða leiðandi í sjávarútvegi innan ESB eins og stefnt er að. ,,Ég myndi segja að það væri ofmat ársins,“ sagði Þorsteinn.