Forsetahjónunum, Guðna Jóhannessyni og Elizu Reid, og fylgdarliði var boðið að skoða norsku hafrannsóknastofuna á Marineholmen í fylgd Haralds Noregskonungs er þau voru í opinberri heimsókn í Noregi í síðustu viku.

Í heimsókninni tóku forsetahjónin og Haraldur konungur þátt í vísindastörfum og skutu rafeindamerkjum í þrjá makríla sem var síðan sleppt lifandi í sjóinn. Sjá myndir HÉR .

Frá árinu 2011 hafa 250 þúsund makrílar, sem veiddir eru á handfæri, verið merktir með rafeindamerkjum og sleppt í hafið. Rafeindamerkin safna upplýsingum um ástand sjávar og sýna dreifingu makrílsins.

Þegar merktir makrílar veiðast eru þeir skannaðir með sérstökum lesurum sem eru við færibönd í vinnslustöðvum. Átta slíkir lesarar eru í vinnslum í Noregi og níu erlendis, þar af þrír í íslenskum uppsjávarfrystihúsum.