Í opinberri heimsóknar forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, til Danmerkur í síðasta mánuði heimsótti forseti og föruneyti hans ásamt Friðriki krónprinsi Dana höfuðstöðvar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í Kaupmannahöfn.
Það kom í hlut Jóhanns Sigurjónssonar, fyrrverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar og núverandi talsmanns málefna hafsins í utanríkisráðuneytinu, að mæla fyrir sendinefnd forseta, þar sem þess var minnst að allt frá upphafi aðildar Íslands að ráðinu árið 1938 hefur það gegnt lykilhlutverki í starfi Íslands á sviði haf- og fiskirannsókna. Alla tíð hefur fjöldi íslenskra vísindamanna tekið virkan þátt í vinnunefndum og ársfundum ráðsins, auk þess sem Íslendingar hafa gegnt fjölmörgum forystustörfum í þágu stofnunarinnar.
Framkvæmdastjóri ICES, Anne Christine Brusendorff, flutti greinargott yfirlit um hlutverk og starfsemi ICES, annars vegar vísindasamstarfið þar sem fræðimenn í fremstu röð á sviði haf- og fiskirannsókna bera saman bækur sínar; hins vegar hið óháða ráðgjafarhlutverk ICES gagnvart sjálfbærri nýtingu fiskistofna og umhverfismálum á Norður Atlantshafi. Hún vísaði til þess að innan samstarfsnets ICES væru nálægt 5000 vísindamenn frá 50 löndum. Aðildarlöndin væru nú 20 talsins í Evrópu og Norður- Ameríku. Um 2000 vísindamenn væru árlega virkir í starfi ráðsins.
Síðan vék hún sérstaklega að verkefnum, sem snúa að Íslandi og þátttöku landsins um þessar mundir utan árlegrar fiskveiðiráðgjafar fyrir helstu stofna okkar. Þar má nefna athuganir á víxlverkunum í vistkerfinu, áhrif breyttra aðstæðna á útbreiðslu og stofnstærðir nytjastofna í kringum Ísland, áhrifaþætti á vistkerfið svo sem togveiðar og súrnun sjávar, sameiginleg gagnasöfnun og varðveisla gagna á Norður- Atlantshafi og rannsóknir á vistkerfi Norður-Íshafsins, m.a. áhrif hlýnunar sjávar. Hún rómaði framlag Íslands til samstarfsins á vettvangi ICES.