Í dag hleyptu forseti Íslands, hr. Guðni TH. Jóhannesson og forsetafrúin Eliza Reid, sölu Neyðarkalls Björgunarsveitanna af stað með formlegum hætti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Tóku forsetahjónin við stórum Neyðarkalli við færanlega stjórnstöð björgunarsveita á Suðvesturhorninu, við Perluna í dag.

„Neyðarkall 2023 er aðgerðastjórnandi og aðgerðastjórnandinn Karen Lárusdóttir, sem einnig er glettilega lík Neyðarkalli 2023, útskýrði hlutverk aðgerðastjórnanda fyrir forsetanum og sýndi honum inn í stjórnstöðina og hvernig aðgerðir eru skipulagðar og stýrt,“ segir í tilkynningunni.

Salan stendur fram á sunnudag

Neyðarkall björgunarsveitanna er ein af stóru fjáröflunum björgunarsveitanna og segir í tilkynningunni að fram á sunnudag megi búast við að björgunarsveitafólk annað hvort knýja dyra eða bjóði Neyðarkall til sölu við verslunarmiðstöðvar og aðra staði.

„Það er von okkar að landsmenn taki nú sem endranær vel á móti sjálfboðaliðum okkar og sjái sér fært að styrkja björgunarsveitir landsins,“ segir Slysavarnafélagið Landsbjörg.