„Í vaxandi mæli verðum við að fara að horfa á hafrannsóknir þannig að þær séu til þess að við skiljum betur vistkerfi hafsins og að við skilum okkar til komandi kynslóða í því að varðveita þessa matarkistu sem hafið er. Að þau vistkerfi séu áfram komandi kynslóðum til reiðu,” sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í viðtali við Fiskifréttir í síðustu viku. „Það er stórt verkefni, það er samfélagslegt verkefni, og það er ekki einkamál þeirra sem nýta auðlindir sjávar.“
Stundum heyrast raddir um að veiðileyfagjöld þurfi að standa undir kostnaði við hafrannsóknir og annað utanumhald sjávarútvegsins. Aðspurð segist hún ekki vera viss um að sú nálgun sé sú besta, þó að eitt markmiða laga um veiðigjald sé m.a. að standa undir kostnaði við ýmsa innviði sem tengjast fiskveiðistjórnun.
Hún var einnig spurð út í orkuskiptin í sjávarútvegi, sem stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á en kostnaðurinn hefur vaxið mörgum í augum.
„Vandinn við alla þessa umræðu um orkuskipti er að forsendurnar eru á fleygiferð“„ segir hún. „Þannig að við setjum niður eitthvert plan í dag og einhverjar forsendur sem eru gjörbreyttar eftir ár, og ég tala nú ekki um eftir fimm ár. Eins og þetta lítur út núna þá er það fjarlæg niðurstaða að geta klárað full orkuskipti í sjávarútvegi. En við vitum það, í ljósi þess hve oft skrefin hafa verið stigin hratt, að þetta getur breyst á mjög stuttum tíma. Þess vegna hef ég sagt, að það sem skiptir mestu máli akkúrat núna er að gera það sem við getum gert strax.“
Það sem hægt er að gera strax er að halda áfram með rafvæðingu hafna og gera lagabreytingar sem til dæmis hvetji smábátaeigendur til þess að fara í rafvæðingu.
„Það eru ekki margir sem eru komnir af stað, en þeir sem hafa verið í sambandi við okkur segja að það skipti strax máli ef stjórnvöld segja að þau vilji fara þangað. Orð eru til alls fyrst og þó að skrefin séu lítil þá eigum við að taka þau, og þau safnast upp. Ég hef mjög sterka tilfinningu fyrir því að það sé mikill metnaður í íslenskum sjávarútvegi og ég held að það skipti mjög miklu máli að stjórnvöld og hagsmunaaðilar séu að tala einum rómi í þessu efni.“
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir það ekkert vera neitt smá verkefni sem hún fékk upp í hendurnar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. FF MYND/Eyþór
Svandís segir greinina stönduga og örugglega geta lagt meira af mörkum. FF MYND/Þorgeir Baldursson