Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Vísis, skrifar í Fiskifréttir um jarðhræringar, tilurð staðarins og samfélagið.
„Það hefur margt gengið á í lífi okkar Grindvíkinga síðustu ár og óþarfi að fara yfir það allt hér. Eitt af því er að hrært hefur verið hressilega upp í tímaskyni okkar. Nú er átta hundruð ára hvíldartími Reykjanessins í eilífri sköpuninni stuttur miðað við aldur hraunanna í kringum okkur sem ýmist eru tvö eða fimm þúsund ára gömul. Samt var tíminn á milli fjögur og ellefu þann 10. nóvember lengi að líða og margt sem komst fyrir á þeim klukkustundum. Þær voru ekki langar fimm mínúturnar sem fólk fékk til að ná því verðmætasta úr húsum sínum þegar það fékk fyrst að fara í þau eftir rýmingu undir ströngu eftirliti björgunar- og sérsveitarmanna.
Milli ísaldar og 10. nóvember
Einhvern tímann milli ísaldar og 10. nóvember 2023 urðu þeir hafstraumar til í kringum Ísland sem eru ein af forsendunum fyrir staðsetningu og uppbyggingu byggðarinnar í Grindavík. Einnig rann hraun á hafsbotni og Selvogsbankinn myndaðist sem og skriðjöklar skófu upp neðansjávardali sem sköpuðu fiskimið eins og Grindavíkurdýpið. Skaparinn lét ekki staðar numið við þetta heldur hannaði veðurkerfi tengt snúningi jarðar og eðlisþyngd loftsins eftir hita þess. Þannig urðu óveðurslægðirnar til sem oftast koma fyrst upp að ströndinni við Grindavík og sjá til þess að efstu lög sjávar blandast neðri lögum hans. Þannig verður upphaf fæðuhringsins í hafinu til með hjálp sólarinnar sjálfrar. Öll þessi meistaraverk Skaparans urðu svo til þess að þorskurinn, konungur hafsins, valdi fiskimiðin utan við Grindavík sem sinn aðal hrygningarstað.

Það þurfti eldgos, hraunrennsli og rok til að skapa aðstæður fyrir sjávarplássið Grindavík. Allar okkar helstu auðlindir, heita vatnið, kalda vatnið, rafmagnið og fiskistofnarnir, byggja á þeirri náttúru sem skaparinn færði okkur og þeirri þekkingu sem kynslóðir hafa eytt ævinni í að byggja upp. Það hefur kostað mannfórnir, svita og tár.
Ærið verkefni framundan
Þó samfélagið í Grindavík liggi nú tímabundið í dvala hafa forsendurnar fyrir tilveru þess ekki breyst nema til batnaðar síðustu öldina. Umhverfis okkur eru helstu útflutningshafnirnar ásamt alþjóðaflugvellinum og nálægð okkar við höfuðborgina og fjölmennustu byggðir landsins eru okkur mikill styrkur. Þess vegna blómstrar iðnaður, þjónusta og ferðamennska í bænum. Hvort við þurfum að bíða vikur eða mánuði eftir því að endurræsa samfélagið okkar að fullu mun koma í ljós og er í stóra samhenginu ekki aðalatriðið. Flest fyrirtækjanna þola þá bið og óvissu betur en margir einstaklingar og fjölskyldur sem vítt og breytt um landið berjast nú fyrir sinni daglegu rútínu með ærnum tilkostnaði, röskun og fyrirhöfn. Þörfin á festu og aðstoð liggur mest þar. Því er mikilvægt að upplýsingar og samskipti allra séu vönduð og yfirveguð á þeirri vegferð sem við öll erum í.
Náttúra sem gefur og tekur
Það er ærið verkefni sem bíður okkar á þessum sögulega tíma sem reyna mun á þolinmæði skipulag skilning og samstöðu. Það verkefni snýst sem fyrr um að læra að lifa með náttúrunni á sem öruggastan hátt, náttúru sem bæði hefur gefið og tekið.
Þar til næst.