„Ég er alveg sammála Steingrími um að þetta eigi ekki að vera styrjöld. En þá hlýtur hann að vilja draga frumvörpin til baka og setjast niður með þeim sem best þekkja til í greininni til að reyna að leysa málið. Það er það sem ítrekað hefur verið óskað eftir, án árangurs," segir Adolf Guðmundsson formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna um viðtal við Steingrím J. Sigfússon sem birtist í Fréttablaðinu í morgun undir yfirskriftinni „Þetta á ekki að vera styrjöld."

Atvinnuveganefnd fékk þá Daða Má Kristófersson, dósent við HÍ og Stefán Gunnlaugsson, lektor við HA, til að meta áhrif frumvarpsins en þeir skiluðu nefndinni skýrslu á miðvikudaginn. „Þar er frumvarpið í raun sagt ónýtt. Þau ummæli sjávarútvegsráðherra að það eigi að laga frumvörpin í Atvinnuveganefnd ganga ekki upp. Það er ekki hægt að hoppa framhjá hugsanlegum stjórnarskrárbrotum á það einfaldan hátt. Allar umsagnir lögfræðinga eru á þann veg að skattlagningarheimildir séu óljósar, að um afturvirkni sé að ræða og að það mismuni fyrirtækjum. Þegar frumvörpin eru skoðuð saman, þá brýtur frumvarpið um stjórn fiskveiða, gegn 72. grein stjórnarskrárinnar," segir Adolf.

„Svo er ótrúlegt að heyra sjávarútvegsráðherra lýsa áhyggjum yfir því hvað greinin er skuldsett. Sömu grein og hann ætlar sér að taka tugi milljarða út úr. Þetta lýsir bara vinnubrögðunum. Afleiðingar frumvarpanna eru ekki reiknaðar út, hvorki áhrif á einstök fyrirtæki, byggðarlög né þjóðhagsleg áhrif. Það versta er að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin gerist sek um svona vinnubrögð," segir Adolf.

Hér má sjá áðurnefnda greinargerð Daða og Stefáns til atvinnuveganefndar Alþingis.