Formenn fjögurra stéttarfélaga, þau Aðalsteinn Árni Baldursson hjá Framsýn, Sólveig Anna Jónsdóttir Eflingu stéttarfélagi, Vilhjálmur Birgisson, Verkalýðsfélagi Akraness og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafa sent frá sér sameiginlega tilkynningu þar sem þau fordæma „ólýðræðisleg vinnubrögð trúnaðarmannaráðs Sjómannafélags Íslands og brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu.“
Þau skora á forystu Sjómannafélags Íslands að virða lög og reglur sem gilda almennt um starfsemi stéttarfélaga og kjörgengi félagsmanna á vegum verkalýðshreyfingarinnar og afturkalla ákvörðun sína um brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur þegar í stað.
Áður hafði Drífa Snædal, nýkjörinn forseti ASÍ, lýst furðu sinni á þróun mála innan Sjómannafélagsins eins og kom fram í svohljóðandi færslu hennar:
Eftir að hafa fylgst með ótrúlegri aðför formanns Sjómannafélags Íslands að Heiðveigu Maríu Einarsdóttir og þeim skilyrðum sem félagsmenn þurfa að uppfylla til að geta gefið kost á sér í trúnaðarstöður get ég ekki á mér setið. Í fyrsta lagi skal nefna að Sjómannafélag Íslands er ekki í Alþýðusambandi Íslands heldur sjálfstætt félag. SjómannaSAMBAND Íslands eru hins vegar regnhlífarsamtök sjómanna innan ASÍ. Ef félag innan ASÍ hegðaði sér með svipuðum hætti og Sjómannafélag Íslands gerir þá yrði gripið í taumana og almennir félagsmenn hefðu þá möguleika á að fara með málið áfram innan heildarsamtakanna. Þetta er ókosturinn við að vera ekki innan heildarsamtakanna, það eru engar félagslegar kæruleiðir til staðar. Það er MJÖG alvarlegt mál að víkja fólki úr stéttarfélagi og svipta fólk réttindum sínum. Hvað með aðgengi að sjúkrasjóði, fræðslusjóði og orlofssjóði svo ekki sé talað um félagslegu starfi? Er verið að svipta hana áunnum réttindum og tryggingum? Ég vil hvetja farmenn og fiskimenn til að ganga til liðs við sjómannafélög og stéttarfélög sem eru innan Alþýðusambandsins og njóta þar með félagslegrar verndar sem heildarsamtök geta veitt
Tilkynning formannanna fjögurra er hins vegar svohljóðandi:
Stéttarfélög eru og eiga að vera skv. lögum nr. 80/1938, opin öllum sem starfa á því starfssvæði sem kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags ná yfir. Félagsaðildinni fylgja mikilvæg réttindi sem eru hluti af velferð launafólks á vinnumarkaði og hún tryggir vernd félagsmanna í samskiptum sínum við atvinnurekendur. Þetta kemur skýrt fram á heimasíðu Sjómannafélags Íslands þar sem sérstaklega er fjallað dagpeninga og styrki til félagsmanna, orlofskosti þeirra og aðgang að lögfræðiþjónustu svo fáein dæmi séu tekin. Stéttarfélagi er undir engum kringumstæðum heimilt að reka félagsmann úr félaginu og svipta hann þar með þessum réttindum.
Aðild að stéttarfélagi felur jafnframt í sér rétt til lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa i félaginu með málfrelsi, tillögurétti, atkvæðisrétti og kjörgengi. Krafa um greiðslu félagsgjalda í þrjú ár til þess að öðlast kjörgengi innan félagsins felur augljóslega í sér ólögmætar hömlur á frelsi og réttindi félagsmanna og slíkt þekkist ekki innan íslenskrar verkalýðshreyfingar.
Alvarleg brot félagsmanna gegn félaginu eins og t.d. ef hann vinnur með atvinnurekendum gegn hagsmunum þess geta í alvarlegustu undantekningar tilvikum leitt til þess að hömlur verði settar á atkvæðisrétt og kjörgengi. Skoðanaágreiningur og gagnrýni á störf félagsins eru ekki slík brot heldur skýrt merki um lýðræðislega þátttöku í starfsemi félagsins.
Leiða má af því líkur að skoðanir Heiðveigar á starfsemi Sjómannafélags Íslands og ákvörðun hennar um gefa kost á sér til formanns í félaginu sé ástæðan fyrir þessum hörðu viðbrögðum af hálfu trúnaðarmannaráðs félagsins. Í því efni hefur hún einungis nýtt sér félagsbundin réttindi sín og stjórnarskrárvarið málfrelsi sem augljóslega hefur komið við kaunin á forystu félagsins. Þess vegna er mikilvægt að félagsmenn Sjómannafélags Íslands bregðist við samþykkt félagsins og mótmæli henni harðlega.
Verði þessi gjörningur ekki afturkallaður er Sjómannafélag Íslands að skrifa nýjan kafla í sögu verkalýðshreyfingarinnar sem ekki er sómi af. Formenn VR, Eflingar stéttarfélags, Framsýnar stéttarfélags og Verkalýðsfélags Akraness skora því á forystu Sjómannafélags Íslands að virða lög og reglur sem gilda almennt um starfsemi stéttarfélaga og kjörgengi félagsmanna á vegum verkalýðshreyfingarinnar og afturkalla ákvörðun sína um brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur þegar í stað.