Hjalteyri Sea Snack, sem sérhæfir sig í vinnslu á gæludýrasnakki úr íslensku fiskhráefni, sem náð samningi við bandarískan dreifingaraðila sem leiðir til þess að núverandi framleiðslugetafyrirtækisins á Hjalteyri verður fullnýtt.

Hjalteyri Sea Snack er átta mánaða gamalt nýsköpunarfyrirtæki og allan þann tíma sem það hefur verið starfandi hefur stóra málið snúist í kringum það að finna stóran aðila í Bandaríkjunum eða Kanada sem kaupir framleiðslu fyrirtækisins í miklu magni.

Jóhannes Valgeirsson, framkvæmdastjóri Hjalteyri Sea Snack, segir um gríðarlega stóra markaði að ræða erlendis fyrir gæludýrasnakk.

Einfalt að stækka

„Menn horfa mjög jákvæðum augum til íslenska fisksins og nýtingu á afsettu hráefni fyrir verðmætasköpun eins og við erum að gera. Í gegnum tíðina hefur gjarnan mjöli, bindiefnum og öðrum efnum verið bætt í  gæludýrasnakk. Bandarískir gæludýraeigendur líta til að mynda ekki við gæludýrasnakki sem framleitt er í Kína. Ástæðan er sú að fyrir nokkrum árum drápust mörg hundruð þúsund hundar vestanhafs sem rakið var til eitrunar í gæludýrafóðri frá Kína. Bandaríkjamenn vilja núna eingöngu vöru sem framleidd er þar í landi eða frá stöðum eins og Íslandi, þar sem menn geta treyst því að unnið er úr fersku hráefni. Okkur hefur orðið langmest ágengt í Bandaríkjunum og Kanada og erum komnir með undirskrifaðan samning við dreifingaraðila í Bandaríkjunum.“

Þá hefur aðili í Kanada ákveðið að leggja inn pöntun snemma á næsta ári. Þar með verður núverandi framleiðslugeta verksmiðjunnar á Hjalteyri fullnýtt sem er um 4 tonn á mánuði.

„Það er mjög einfalt fyrir okkur að tvö- til þrefalda framleiðslugetuna og gerum það um leið og pantanir af slíku tagi hafa borist,“ segir Jóhannes.

Hjalteyri Sea Snack er fyrsta íslenska fyrirtækið sem fékk svokallað nýsköpunarlán frá Byggðastofnun. Jóhannes segir að það hafi breytt miklu í starfsemi fyrirtækisins. Stóri munurinn á nýsköpunarláninu og öðrum tegundum lána er sá að í fyrra tilfellinu er eingöngu viðskiptahugmyndin og varan að veði.

Hrossaþari í snakkið

Rúnar Friðriksson verksmiðjustjóri Hjalteyri Sea Snack hefur um nokkurra ára skeið unnið að þróun snakks úr sjávarafurðum. Rúnar fékk þá hugmynd að nýta roð og bein sem verða eftir við framleiðslu á marningi úr þorski til að framleiða dýrafóður. Afsetta hráefnið er hakkað í fars og það steypt í kökur. Úr verður 100% náttúrulegt og afar hollt hundafóður úr íslenskum fisk sem er 65% prótein, fitulítið en orkuríkt.

„Hundar eru áfjáðir í snakkið en málið snýst alltaf um það að hundaeigandinn sé ánægður. Við framleiðum það á sama hátt úr ýsu og hugsanlega gætum við líka framleitt úr ufsa en óstöðugt framboð gerir það dálítið erfiðara,“ segir Jóhannes.

Hjalteyri Sea Snack er einnig komið í samstarf við Þörungaverksmiðjuna í Reykholti og fær þaðan þurrkaðan hrossaþara sem bætt er út í gæludýrasnakkið. Þar með bætast við snakkið trefjar og vítamín sem eru góð fyrir feldinn.

3-4 starfa núna hjá fyrirtækinu en þegar gangi allt að óskum og markaðssetning takist má ætla að hjá fyrirtækinu verði 10-15 manns starfandi eftir eitt ár.