Reykjanesbær hefur breytt áformum sínum um uppbyggingu í Njarðvíkurhöfn sem höfðu miðast við að taka við og þjónusta skip Landhelgisgæslunnar í samræmi við viljayfirlýsingu fyrrverandi dómsmálaráðherra.

„Þessi áform með Landhelgisgæsluna eru komin á „hold“. Það hefur ekki náðst að ganga frá samkomulagi við ríkisvaldið um endanlega útfærslu,“ segir Halldór Karl Hermannsson, sviðsstjóri atvinnu- og hafnamála hjá Reykjanesbæ.

Halldór segir ríkisstjórnarskiptin í vetur hafa haft áhrif. Málið sé að minnsta kosti í biðstöðu á meðan nýr dómsmálaráðherra hafi það til skoðunar.

Ekki endanlega úr sögunni

„Við hófum framkvæmdir í Njarðvíkurhöfn og höfum verið að dýpka hafnarsvæðið, meðal annars til að geta staðið við þessi áform og erum búnir að leggja grunn að skjólgarðinum með dýpkunarefninu sem við höfum mokað upp. Nú er staðan sú að við dýpkum ekki meira að sinni á meðan þessi þáttur er ekki á hreinu. Við munum fara í að klára skjólgarðinn en framkvæmdin verður náttúrlega minni um sig en þegar stefnt var að öflugri aðstöðu fyrir Landhelgisgæsluna,“ segir Halldór

Hafnarstjórinn tekur þó fram að ekki sé lokað á uppbyggingu í framtíðinni. „En það verður að minnsta kosti ekki farið lengra í þessari framkvæmd á meðan það er ekki alveg á tæru hvernig staðið verður að þessu,“ undirstrikar hann.

Framkvæmdirnar hafa að sögn Halldórs verið á samgönguáætlun og notið framlags úr hafnabótasjóði á hefðbundinn hátt en ekkert hafi verið greitt umfram það.

Fjárfestingin nýtist verr

„Það hefði að minnsta kosti orðið miklu betri nýting á þeim ef hitt hefði klárast,“ svarar Halldór spurður hvort fjárfestingin sem þegar hafi verið lagt í muni ekki nýtast. „Við dýpkuðum meira en við ætluðum vegna þess að við vorum að leggja grunninn að þessu. Við ætluðum upphaflega bara að taka innsiglinguna en þar sem við horfðum til þess að geta sinnt þessum skipum sem tilheyra Landhelgisgæslunni var farið í að dýpka meira innan hafnarsvæðis til að auðvelda allt aðgengi.“

Spurður hvort það séu vonbrigði fyrir höfnina og Reykjanesbæ ef ekkert verði af umsvifum Landhelgisgæslunnar með tilheyrandi áhrifum á samfélagið segir Halldór vissulega svo vera.

„Við erum náttúrlega óánægðir með að það hafi ekki náðst að klára þetta eins og að var stefnt, að minnsta kosti af okkar hálfu. En lappirnar sem dregnar voru ekki okkar megin. Það virðist sem viljayfirlýsing sem gefin er af einum ráðherra sé kannski ekki endilega mjög bindandi fyrir næsta ráðherra,“ segir Halldór og vísar á dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæsluna til að svara því hvers vegna þessi framkvæmd sé ekki kláruð í samræmi við það sem miðað var við í viljayfirlýsingunni.

Færa sig í einfaldari útfærslu

Síðastliðinn föstudag var óskað eftir svörum frá dómsmálaráðuneytinu og Landhelgisgæslunni varðandi stöðuna sem upp er komin.

„Vel gengur að gera varðskip Landhelgisgæslunnar út frá Reykjavík og Siglufirði. Engar ákvarðanir liggja fyrir um að breyting verði á núverandi fyrirkomulagi, að því að við vitum. Varðandi fyrirhugaða uppbyggingu á Njarðvíkurhöfn er rétt að leita svara við því hjá stjórnvöldum,“ segir í svari til Fiskifrétta frá Landhelgisgæslunni.

Ekki barst svar frá dómsmálaráðuneytinu áður en gengið var frá Fiskifréttum til prentunar á þriðjudag.

Sérstök bókun var gerð um málið á fundi atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar í liðinni viku. Þar kemur fram að fyrir ári hafi Reykjaneshöfn byrjað framkvæmdir við Njarðvíkurhöfn með því að dýpka á hafnarsvæðinu og í innsiglingu hafnarinnar. Reisa eigi skjólgarð sunnan við núverandi hafnarmannvirki.

„Ekki hefur náðst að ganga frá endanlegu samkomulagi um uppbyggingu á aðstöðu fyrir skipastól Landhelgisgæslu Íslands við viðkomandi stjórnvöld þrátt fyrir fullan vilja Reykjaneshafnar og Reykjanesbæjar. Með hliðsjón af því samþykkir atvinnu- og hafnarráð að útboð og uppbygging skjólgarðsins miðist við einfaldari útfærslu,“ segir í bókuninni.

Frá málinu var sagt í Fiskifréttum í júní 2022. Kom þar fram að Vilhjálmur Árnason alþingismaður hefði leitt viðræður Landhelgisgæslunnar og stjórnar Reykjaneshafna um að nýta Njarðvíkurhöfn fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar í umboði Jóns Gunnarssonar, þáverandi dómsmálaráðherra.

Fiskifréttir  23. júní 2022.
Fiskifréttir 23. júní 2022.

„Við bindum vonir við það að aðstaðan í Njarðvíkurhöfn fyrir varðskipin verði tilbúin á árinu 2025. Þetta er risastórt framfaraskref fyrir Landhelgisgæsluna,“ var haft eftir Vilhjálmi í Fiskifréttum.