Eftirlitsflugvélinni TF-SIF var flogið af landi brott á föstudag og verður áhöfnin við gæslu á ytri landamærum Evrópu næstu vikur á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópu.
Þetta kemur fram á vef Landhelgisgæslunnar þar sem segir að vélin verði gerð út frá Malaga á Spáni að þessu sinni.
TF-SIF sem kom til landsins sumarið 2009 hefur um árabil jafnan verið í útleigu í ýmsum verkefnum tengdum Frontex.
„Með þessari nýju flugvél er einfaldlega um að ræða hreina byltingu í öryggis- löggæslu og eftirliti sem og leit og björgun á Íslandi. Þessi framsýna og stórhuga ákvörðun ríkisstjórnarinnar mun því marka þáttaskil í öryggis og björgunarmálum landsins,“ sagði á vef Landhelgisgæslunnar í apríl 2009.