Sjávarútvegsfyrirtækið HB Grandi hefur tekið í notkun umhverfisstjórnunarkerfi sem þróað hefur verið í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Klappir. Fyrirtækið starfrækir sorpflokkunarstöðvar á öllum starfsstöðvum sínum í Reykjavík, á Akranesi og á Vopnafirði.

Þetta meðal annars kom fram í erindi Svavars Svavarssonar, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá HB Granda, á umhverfisdegi Samtaka atvinnulífsins nýlega, en hann var sérstaklega helgaður loftslagsmálum. Svavar gerði þar grein fyrir aðgerðum fyrirtækisins til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda sem óumflýjanlega fylgir starfsemi stórs útgerðarfélags.

Frá auðlind til neytenda
„Við skilgreinum okkar starfsemi þannig að hún nái allt frá auðlind til neytandans.  Við horfum þess vegna til allrar virðiskeðjunnar þegar við spyrjum okkur hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á nánasta  umhverfi okkar og hvaða þættir eru það sem við getum sjálf haft áhrif á. Og þessir þættir eru að sjálfsögðu fjölmargir og spanna veiðar, vinnslu og flutning á okkar vörum og aðföngum,“ sagði Svavar.

Samstarfsverkefni HB Granda og Klappa nefnist Hrein virðiskeðja sjávarútvegs, og snýr að umhverfis- og aðfangastjórnun félagsins. Öllum umhverfisupplýsingum er varða reksturinn er streymt rafrænt frá upprunastað hvort sem er frá sjó eða landi í þar til gerðan umhverfisgagnagrunn, sem gerir upplýsingarnar aðgengilegar fyrir stjórnendur félagsins.

Svavar sagði að tilgangurinn sé að gefa upplýsingar til stjórnvalda og almennings, en einnig að nýta á markvissan hátt þessar upplýsingar til ýmissa aðgerða  sem er ætlað að draga úr umhverfisáhrifum HB Granda. Kerfið var tekið í notkun árið 2015 en er í áframhaldandi þróun og innleiðing kerfisins er  ennþá í fullum gangi innan félagsins.

„Mesta vinnan við verkefnið hefur farið í þróun kerfisins og innleiðingu. Það þarf að vinna með hverju skipi fyrir sig. Gjarnan eru tvær áhafnir á hverju skipi og mikilvægt að hafa alla með. Það sama á við um vinnslustöðvarnar í landi og stoðdeildirnar. Greiningarvinna hefur farið fram og námskeið haldin í öllum þessum deildum og sérhverju skipi og ábyrgðarmenn skipaðir. Eftirfylgni er mjög mikilvæg og er sú vinna einnig í fullum gangi,“ sagði Svavar en bætti því við að í þróun er sérstakt „umhverfismælaborð“ sem feli í sér rekstrarlegan og umhverfislegan ávinning.

„Þannig er ætlunin að starfsfólk okkar geti fylgst með notkun á olíu, rafmagni, heitu og köldu vatni, flokkun sorps  og fleiri slíkum umhverfisþáttum til sjós og lands í rauntíma og yfir lengra tímabil,“ sagði Svavar.

9 skip
Öll starfsemi HB Granda losaði samtals um 65 þúsund tonn kolefnisígilda árið 2016,  en hún minnkaði um fimm prósent frá árinu 2015 - 95% af þessari 65 þúsund tonna losun árið 2016 má rekja til eldneytisnotkunar fiskiskipanna. Losun vegna rafmagns og hitaveitu er óveruleg, en athygli vekur einnig að losunartölur fyrir úrgang eru hlutfallslega mjög lágar í kolefnisígildum talið en HB Grandi flokkar allt sitt sorp frá sjó og landi.

„Hvað varðar olíunotkun fiskiskipa HB Granda þá hefur hún minnkað verulega í kjölfar sameininga við fjölmargar útgerðir allt frá  árinu 1985 þegar tvær stærstu útgerðir í Reykjavík, Ísbjörninn og Bæjarútgerð Reykjavíkur sameinuðust í Granda, sem var eftir það með níu skipa flota. Í kjölfarið  hófst hrina sameininga útgerðarfélaga á Faxaflóasvæðinu, ýmist undir forystu Granda í Reykjavík eða HB á Akranesi sem náði á endanum allt til Tanga á Vopnafirði þegar öll þessi félög ásamt Svani RE sameinuðust árið 2004  og mynduðu HB Granda,“ sagði Svavar en hagræðingin fólst meðal annars í því að á annan tug skipa hafa verið tekin úr rekstri í kjölfar sameininganna. Nú gerir HB Grandi út sama fjölda skipa, níu skip, og Grandi gerði í upphafi þrátt fyrir nánast þreföldun veiðiheimilda til félagsins eftir fyrrnefndar sameiningar. Sambærileg  þróun hefur átt sér stað meðal annarra sjávarútvegsfyrirtækja um land allt, sagði Svavar.

Olíunotkun snarminnkað
Þetta hefur orðið þess valdandi að olíunotkun íslenska fiskiskipaflotans hefur minnkað um 33% á árabilinu 1990-2014.

„Árangur okkar Íslendinga hvað varðar fiskveiðar er ekki hvað síst að þakka ábyrgri nýtingu á fiskistofnunum, því flestir okkar fiskstofnar eru í góðu ásigkomulagi og má segja að þeir séu auðveiðanlegri en áður. Það eitt útaf fyrir sig veldur minni losun. Með markvissri hagræðingu og réttum hvötum hefur tekist vel til. Bæði hvað varðar nýja þekkingu og færni við veiðar en einnig framþróun í fiskileit, þróun veiðarfæra, veiðitækni, meðhöndlun afla um borð. Af þessum sökum og öðrum hefur afli  á sóknareiningu nær þrefaldast á tímabilinu svo dæmi sé tekið. Sem sagt; sterkir fiskstofnar,  framfarir í veiðum og betra skipulag veiða  á síðustu þrem áratugum hafa leitt til verulega minni losunar gróðurhúsalofttegunda,“ sagði Svavar.

Svartolían út
Nú stendur yfir endurnýjun á skipaflota HB Granda. Nýi flotinn mun samanstanda af færri og afkastameiri skipum en áður hefur verið í útgerðarsögu félagsins, og munu nýju skipin nýta eldneyti betur en þau eldri gerðu. Nýju skipin munu ekki brenna svartolíu, enda hefur notkun svartolíu alfarið verið hætt hjá félaginu. Þar að auki eru áhafnir skipanna að prófa sig áfram með sérstakan mengunarvarnarbúnað til að lámarka losun enn frekar.

„Með þessum nýja skipaflota félagsins sjáum við fram á að ná enn frekari samdrætti í losun á næstu árum og getum jafnframt boðið mun öruggara og betra starfsumhverfi fyrir okkar sjómenn,“ sagði Svavar og lýsti því að fyrirtækið lítur á allan úrgang frá skipunum sem áhættuþátt fyrir umhverfið. Þess vegna komi þau með allt sorp grófflokkað að landi og skila til sorpflokkunarstöðva félagins.

„Skip félagsins tengjast einnig rafmagni frá landi þegar þau eru í höfn og stefnan er að auka notkun landrafmagns í stað olíu og nota hitaveituvatn til hitunar í skipunum í stað rafmagns, þegar því verður við komið. Þá hefur  fiskmjölsverksmiðja félagins á Vopnafirði gengið að langstærstum hluta á rafmagni undanfarin sjö ár í stað olíu.  Á Akranesi keyrir dagverksmiðjan á rafmagni en stefnan er að stóra vertíðarverksmiðjan þar muni einnig keyra á rafmagni í framtíðinni,“ sagði Svavar en HB Grandi starfrækir þrjár starfsstöðvar á landinu, á Vopnafirði, á Akranesi og í Reykjavík.  Sorpflokkunarstöðvar eru á hverjum stað.

Skip og vinnslur félagsins skila öllu sorpi grófflokkuðu til flokkunarstöðvanna en þær hafa það hlutverk að lágmarka sorp til urðunar en hámarka hlutfall nytjahluta sem hægt er að nýta til endurvinnslu. Á þremur árum hefur tekist mjög vel að auka hlutfall flokkaðs og endurvinnanlegs sorps hjá félaginu, að sögn Svavars. Árið 2016 var 58% sorps flokkað og 37% árið áður.

„Skilaboðin eru þessi; markviss stefna stjórnvalda í málefnum sjávarútvegs og  áframhaldandi gróska og nýsköpun í greininni eru þeir áhrifaþættir  sem best tryggja að  markmiðum Íslands í loftslagsmálum verði  náð,“ sagði Svavar.