Vestmannaey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í gærkvöldi að aflokinni stuttri veiðiferð með rúm 40 tonn af karfa.

Að því er segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar fékkst þessi afli á Melsekk vestan við Reykjaneshrygginn sem er um 70 til 80 mílur vestsuðvestur úr Reykjanesinu.

„Þetta gekk afskaplega vel. Við vorum í um það bil sólarhring að fá skammtinn sem við máttum taka,“ segir Egill Guðni Guðnason, skipstjóri Vestmannaeyjar í samtali á svn.is.

Flognir til útlanda strax í dag

„Það var nefnilega veitt eftir pöntun og karfinn mun meðal annars fara á Þýskaland,“ heldur Egill Guðni áfram. Hann segir veðrið hafa verið ágætt á útleiðinni og á miðunum en á landleiðinni hafi verið bölvaður fræsingur.

„Nú er Vestmannaey komin í fjögurra vikna sumarstopp. Í stoppinu verður ýmsu viðhaldi sinnt í skipinu. Ég held að áhöfnin sé bara spennt fyrir fríinu og sumir munu fljúga til útlanda með fjölskyldunni strax í dag,” segir Egill Guðni á vef Síldarvinnslunnar.