Samtals 141 skip var í vöktun hjá Landhelgisgæslunni í gær, sunnudag, samkvæmt færslu sem birt á vef Gæslunnar í gærkvöldi, en talsverður fjöldi skipa hafði þá haldið í höfn eða er í vari meðan óveðrið gengur yfir landið. Togari fékk í gærkvöldi á sig brotsjó 85 sjómílur VSV af Malarrifi og brotnuðu tvær rúður. Nokkur sjór komst inn á gang skipsins, engan sakaði og er annars allt í lagi um borð. Skipverjar telja sig geta framkvæmt bráðbirgða viðgerð og ekki sé þörf á að halda til hafnar.
Nokkur skip voru staðsett í Ísafjarðardjúpi, flest þeirra fiskiskip. Einnig höfðu fimm erlend flutningaskip leitað vars í Garðsjó og eitt flutningaskip var á leið inn í Ísafjarðardjúp. Fá skip voru á sjó við landið í gærkvöldi, fyrir utan nokkur skip úti fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi.
Landhelgisgæslan fylgist vel með þróun veðursins, skipaumferð og sjólagi. Varðskipið Þór er til taks fyrir Austurlandi og er danskt varðskip til taks út af Vesturlandi.