Veltan á fiskmörkuðum landsins minnkaði á fyrri helmingi ársins en salan í tonnum talið jókst. Meðalverð á öllum tegundum hefur lækkað um 13,4% en verð á þorski hefur lækkað um 20%, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Á fyrstu sex mánuðum ársins voru seld alls um 60.800 tonn á fiskmörkuðum landsins fyrir um 14,9 milljarða króna. Meðalverð fyrir allar tegundir var um 245 krónur á kíló.

Þetta er lítilsháttar aukning frá sama tímabili í fyrra í tonnum talið. Þá voru seld um 58 þúsund tonn fyrir um 16,3 milljarða. Meðalverðið var 283 krónur á kíló á öllum tegundum. Sem sjá má hefur meðalverðið lækkað um 38 krónur á kíló milli ára, eða um 13,4%.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.