Fleiri stór sjávarútvegsfyrirtæki en HB Grandi hafa ákveðið að hætta við þátttöku á sjávarútvegssýningunni í Brussel af öryggisástæðum í kjölfar hryðjuverkaárásanna í síðustu viku.

Á sjávarútvegsvefnum Undercurrentnews.com kemur fram að eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum Frakklands, R&O Seafood Gastronomy, hafi hætt við þátttöku og sömuleiðis alþjóðlega fiskeldisfyrirtækið Cermaq sem er með höfuðstöðvar í Osló. Þá eru bandarísku fyrirtækin Trident Seafoods, Copper River Foods, E&E Foods og Seafood Producers Cooperative ekki á listanum yfir sýnendur í Brussel að þessu sinni.

Haft er eftir talsmanni Alaska Seafood Marketing Institute, sem skipuleggur sýningarbás Alaska, að fleiri fyrirtæki séu að hugsa sinn gang varðandi þátttöku, en á hinn bóginn séu önnur bandarísk fyrirtæki eins og Ocean Beauty Seafoods og Icicle Seafoods ákveðin í að mæta í Brussel.

Af stórfyrirtækjum í Asíu er nefnt að Pacific Andes International sé ekki á sýningarlistanum en talsmaður þess vildi ekki gefa upp ástæðu þess. Þá hefur Korea Fishery Trade Assiociation dregið sig út úr sýningunni.