Leyfisveitingar til nauðsynlegra dýpkunarverkefna í höfnum er orðið svo flókið og tafsamt að til vandræða horfir. Allar slíkar framkvæmdir teljast orðið til námuvinnslu og losun dýpkunarefnis þarf að skoðast með þeim formerkjum hvort nauðsynlegt sé að viðkomandi framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem Jón Þorvaldsson, aðstoðarhafnarstjóri Faxaflóahafna, skrifar og er birt í fundargerð fyrirtækisins frá því 8. desember.

Tilefnið er umsókn um losun dýpkunarefnis úr innsiglingarrennu að Bryggjuhverfishöfn í Elliðaárvogi. Verkið er viðhaldsdýpkun vegna sets sem borist hefur í rennuna frá efnisvinnslu Björgunar og efnismagn sem áætlað er að losa á gamalt losunarsvæði austan Engeyjar er ellefu til fimmtán þúsund rúmmetrar.

„Efnismagn dýpkunarefnis losað í sjó á námusvæði austan Engeyjar er í dag orðið um milljón rúmmetrar og þar er um 300.000 rúmmetra losunarrými enn til staðar samkvæmt nýjustu mælingum. Engin vandamál eru þekkt sem þessu verklagi hafa fylgt. Úr þessu námusvæði voru á sínum tíma teknir um 1.500.000 rúmmetrar af malarefni og losað dýpkunarefni fyllir upp þessa gömlu efnisnámu og færir sjávarbotn í svipaða mynd og var áður en efnistökur hófust,“ skrifar Jón.

Flækjustig
Jón rekur nákvæmlega hvað nú þurfi til að hefja framkvæmd eins og þá sem hér um ræðir. Fá þurfi umfjöllun og samþykkt Skipulagsstofnunar í stærri verkum hvort að viðkomandi framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Fá þurfi umfjöllun og samþykkt sveitastjórnar í smærri verkum hvort að viðkomandi framkvæmd sé matsskyld. Ef dýpka og varpa skal efni innan 115 metra frá strönd skal lögsaga vera hjá sveitastjórn, en ef utan þeirra marka er lögsaga hjá Skipulagsstofnun. Fyrirspurn um matsskyldu fylgir að sækja þarf síðan til sveitastjórnar um framkvæmdaleyfi á grundvelli samþykkts aðal - og eða deiliskipulags hvort sem að framkvæmd er matsskyld eða ekki. Umhverfisstofnun getur því ekki svarað erindi fyrr en að þessu ferli öllu er lokið. Þá sendir stofnunin í öllum tilfellum erindið til Hafrannsóknastofnunar og leitar umsagnar. Þegar að svör þaðan liggja fyrir fari fram mat á mögulegum áhrifum framkvæmdar áður en ákvörðun er tekin um leyfi og skilyrði.

„Hér er lýst umfjöllunarferli sem stofnanir eru búnar að túlka og skilgreina eftir sínu höfði. Ferlið tekur langan tíma og er líklega í sumum tilfellum orðið nær endalaust,“ skrifar Jón og heldur áfram. „Mikilvægt er að útgefnar leiðbeinandi reglur séu ekki þannig gerðar að flækjustig umfjöllunar og samþykkta sé aukið og það gert nær ómögulegt að vinna eftir þeim. Ferlið verði það torsótt að óvinnandi verði.“

Breyta þarf verklagi
Staða dýpkunarverkefnisins í Bryggjuhverfishöfn hófst með formlegu erindi Faxaflóahafa í september 2016. Verkið er viðhaldsdýpkun á hreinu seti, mengunarlaust og á losunar - og varpstað er áratuga reynsla af efnislosun, að sögn Jóns og efnismagnið í þessu tilfelli um eitt prósent af því sem áður hefur verið losað á þessum stað.

„Það er eðlilegt að þegar að ný höfn og hafnarmannvirki eru byggð þurfi að skoða og meta umhverfisþætti og fram fari mat á umhverfisáhrifum þegar að umfang og aðstæður kalla á slíkt. Þá sé fjallað um alla lykilþætti mannvirkjagerðar í heild sinni. Aftur á móti er það svo að við viðhald og endurbætur á höfn sem löngu er byggð og er í fullum rekstri er rétt að setja spurningar við samfelldar þarfir fyrir leyfisveitingar á verkum svo sem varpi efnis fyrir viðhaldsdýpkanir. Þessu verklagi verður að breyta,“ skrifar Jón.

Samþykkt var á stjórnarfundi Faxaflóahafna að vísa erindi Jóns til Sambands íslenskra sveitarfélaga.