Í kjölfar skyndiskoðana varðskipsins Ægis á fiskimiðunum við landið í sumar hafa verið gefnar út 14 kærur á skipstjóra og 28 skipstjórar hafa verið áminntir, að því er fram kemur í frétt á vef Landhelgisgæslunnar.
Á tímabilinu frá 1. júní til 18. september var varðskipið gert út í 57 daga og fór til eftirlits í 87 skip og báta.
Við eftirlit er gerð athugun á afla, veiðarfærum, réttindamálum og búnaði um borð. Gerðar hafa verið athugasemdir við búnað, réttindamenn hafa ekki verið með skírteini meðferðis, vöntun hefur verið á réttindamönnum um borð eða þeir verið með útrunnin réttindi og jafnvel réttindalausir. Þá hefur haffæri verið útrunnið í nokkrum tilfellum og eitt skip var staðið að meintum ólöglegum veiðum.
Óvenjulega mikið var um mælingar á smáfiski á þessum tíma sem hafa leitt til fimmtán skyndilokana í samráði við fiskifræðinga Hafrannsóknarstofnunar. Mikið var um smákeilu í afla færeyskra línubáta við Suðausturland í byrjun september. Þannig var 65-85% af keilu undir 55 cm. Viðmiðunarmörk til skyndilokana á keilu eru 25% undir 55 cm.
Sjá nánar á vef Gæslunnar, HÉR