TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar fór í gær í löggæslu- og eftirlitsflug á Reykjaneshrygg og suður fyrir efnahagslögsögumörkin til að kanna stöðu á úthafskarfamiðum. Samtals eru nú fjórtán rússnesk skip skráð til veiða og voru þau öll auðkennd með nafni og kallmerki. Tíu rússneskir togarar eru staðsettir við lögsögumörkin en fjórir togarar stefna á miðin. Veiðar þjóðanna sem tilheyra NEAFC hefjast þann 15. maí  næstkomandi og má því reikna með að skipum á svæðinu fjölgi umtalsvert á næstunni.

Erlendu karfaskipin eru eins og vorboðinn og koma ávallt á svipuðum tíma á miðin.  Búast má við að þeim fjölgi talsvert á næstunni, segir á vef Gæslunnar.