Á árinu 2014 komu upp 917 mál vegna gruns um brot gegn lögum og reglum á sviði fiskveiðistjórnunar, að því er fram kemur í ársskýrslu Fiskistofu fyrir árið 2014. Þar af voru 672 mál vegna vanskila á afladagbókum.

Brot gegn reglum um löndun afla voru 55, þar af voru 3 mál vegna framhjálöndunar og 9 mál vegna rangrar tilgreiningar á afla. Brot við grásleppuveiðar voru 28 og brot við strandveiðar 34.

Meðferð brotamála getur lokið með beitingu viðurlaga, sem eftir atvikum fela í sér áminningu eða veiðileyfissviptingu. Hluti brotamála er kærður til lögreglu og var þar um 14 mál að ræða. Veiðileyfissviptingar vegna veiða umfram aflamark voru 30, 127 voru sviptir veiðileyfi vegna vanskila á afladagbókum og 63 voru sviptir veiðileyfi vegna vanskila á greiðslum gjalda.