Aflamark í norsk-íslenskri síld á þessu ári er 62.500 tonn og þegar þetta er skrifað hefur verið landað tæpum 5.000 tonnum. Á síðasta ári var aflamarkið 61.400 tonn og allt veiddist. Alls eru 22 skip með aflamark í norsk-íslensku síldinni þetta árið og veiðar eru hafnar úti fyrir Austfjörðum. Hlutfall íslenskrar sumargotssíldar í aflanum hefur verið nálægt 30%. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og Alþjóðahafrannsóknaráðsins í íslenskri sumargotssíld fyrir nýhafið kvótaár hljóðar upp á 103.370 tonn.
Enn skip á kolmunna
Þetta er mikil aukning í íslensku sumargotssíldinni frá fyrra fiskveiðiári þegar ráðgjöfin hljóðaði upp á 81.7000 tonn. Útlit er fyrir ágætan gang í uppsjávarveiðum á árinu þegar litið er til ágætrar makrílvertíðar. Aflamark í makríl var rúm 125 þúsund tonn og alls veiddust tæp 119 þúsund tonn. Enn eru skip á kolmunnaveiðum og þar hafa verið gerðar tilraunir til vinnslu til manneldis með ágætum árangri. Aflamark í kolmunna þetta almanaksár er rúmlega 293 þúsund tonn og veiðin nemur nálægt 204 þúsund tonnum. Svo er framundan veiðar á norsk-íslenski og íslenskri sumargotssíld.
Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, veitti ráð um veiðar á norsk-íslenskri síld í september í fyrra fyrir árið 2025. Rágjöfin var sú að ekki verði veitt meira en 402.000 tonn úr þessum deilistofni og langstærsti hluti veiðanna er á vegum norskra skipa. Ráðgjöf fyrir árið 2024 var 390.000 tonn en heildaraflinn varð um 447.000 tonn sem var 15% umfram ráðgjöf.
Ekkert samkomulag er á milli þjóða sem stunda veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum um skiptingu aflahlutdeildar. Hver þjóð setur sér því aflamark einhliða. Þetta hefur leitt til þess að frá árinu 2013 hafa veiðar umfram ráðgjöf ICES numið 4-42% á ári.
Góð makrílvertíð og kolmunni til manneldis
Veiðar íslenskra skipa eru komnar vel af stað að aflokinni góðri makrílvertíð. Hefur síldin þótt gott hráefni til manneldis. Síldarvinnslan í Neskaupstað fer með stærstan hluta kvótans af íslenskum uppsjávarútgerðum í norsk-íslenskri síld, alls tæplega 12.500 tonn en Ísfélagið í Vestmannaeyjum fer með 11.400 tonna kvóta.

Róbert Hafliðason skipstjóri á Víkingi AK var á kolmunnaveiðum í íslenskri lögsögu utan í Rósagarðinum. Þar hafði verið ágæt veiði en heldur dregið úr henni síðasta sólarhringinn. Hann sagði að þetta væri síðasti komunnatúrinn og til stæði að fara á síldveiðar næst. „Við eigum að koma með síld á mánudag svo við ákváðum að bregða okkur í einn kolmunnatúr í millitíðinni. Þetta hefur ekki verið neitt mok, 3-4 hundruð tonn í holi og það er heldur að draga úr þessu núna,“ segir Róbert. Fimm önnur skip voru við þessar veiðar. Aðalsteinn Jónsson SU var í Héraðsflóa við síldveiðar og Vilhelm Þorsteinsson EA landaði 1.600 tonnum af góðri síld á Eskifirði í gær sem fékkst í Héraðsflóa.

Komið í fullan gang
„Það er verið að landa síld úr fjórða túrnum núna. Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa og hann er með 1.600 tonn til vinnslu sem er mjög stór vinnsluskammtur,“ segir Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju.

27% aflans hjá Samherjaskipinu var Íslandssíld. Hlynur segir að hún sé alls ekki lakara hráefni en hún er smærri. „Norsk-íslenska er samt besta síldin, það er ekkert hægt að fara í launkofa með það.“ Síldin er heilfryst og það sem er undir 350 grömm er flakað. „Síldarvertíðin er komin í fullan gang hjá okkur. Við byrjuðum í síðustu viku með þremur förmum og núna ætlum við að keyra á þetta. Vonandi verður veiði góð.“