Formenn allra þriggja stjórnarflokkanna í Færeyjum hafa náð samkomulagi um frumvarp að nýrri fiskveiðistefnu eftir að hafa hlustað á umsagnir allra þeirra sem málið varðar. Hin nýja skipan tekur gildi frá og með næstu áramótum. Kvótakerfi tekur við af sóknardagakerfi nema hjá smærri bátunum sem verða áfram í dagakerfi.
Samkvæmt frumvarpinu verða 25% af kvótum uppsjávartegunda (makríls, norsk-íslenskrar síldar og kolmunna) boðin upp ýmist til skemmri eða lengri tíma. Sömuleiðis verða 25% af kvótum Færeyinga í botnfiski í Barentshafi, á Flæmingagrunni og við Austur-Grænland boðinn upp. Hinum 75 prósentunum verður úthlutað til skipanna sem eru í þessum veiðum. Ef kvótarnir verða auknir frá því sem verður árið 2018 skal viðbótin sett á uppboð.
Veiðigjald verður lagt á þann kvóta sem ekki fer á uppboð. Miðað við núverandi ástand botnfiskstofna á færeyska landgrunninu verða veiðiheimildir í botnfiski ekki boðnar upp.
Einnig eru ákvæði um kvótaþak og erlent eignarhald á útgerð sem verður afnumið í áföngum á fjórum árum.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.