Vinnsla á makríl í fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði hefur gengið mjög vel að undanförnu. Vinnslan er að jafnaði mönnuð með 120 til 150 starfsmönnum og á álagstímum eru jafnvel fleiri á launaskrá. Um síðustu áramót voru skráðir 527 íbúar í Vopnafjarðarhreppi og að teknu tilliti til aðkomumanna og brottfluttra Vopnafirðinga, sem vinna í fiskiðjuverinu í sumar, lætur nærri að um fjórðungur íbúanna taki þátt í þeirri miklu verðmætasköpun sem vinnsla á uppsjávarfiski hefur í för með sér.
Þorgrímur Kjartansson, gæðastjóri í uppsjávarvinnslu HB Granda á Vopnafirði, segir að gangurinn í vinnslunni hafi verið mjög góður upp á síðkastið. Veiðin sé jafnari, makríllinn stærri og það muni mikið um að hafa fengið þriðja skipið til að sjá um hráefnisöflunina en ekki er langt síðan að Lundey NS hóf veiðar eftir breytingar sem gerðar voru á skipinu í sumar.
,,Það er nánast full vinnsla hjá okkur allan sólarhringinn. Það kemur fyrir að vinnsla liggi niðri í nokkra tíma á meðan beðið er eftir skipi. Upp á síðkastið hefur aflinn verið nánast hreinn makríll og meðalvigtin hefur aukist til muna. Makríll í stærstu flokkunum er heilfrystur en þann smærri hausum við og slógdrögum. Allur aflinn er nýttur og það er ekki hátt hlutfall sem fer í vinnslu á mjöli og lýsi,“ segir Þorgrímur.