„Af þeim 148 hvölum sem voru veiddir, voru 36 hvalir (24%) skotnir oftar en einu sinni. Þar af voru fimm hvalir skotnir þrisvar og fjórir hvalir skotnir fjórum sinnum. Einum hval með skutul í bakinu var veitt eftirför í 5 klst án árangurs,“ segir í samantekt um hvalveiðar síðasta sumars sem MAST hefur birt á vef sínum.

„MAST telur sérstaka ástæðu til að farið verði ítarlega yfir öll gögn og í kjölfarið metið hvort veiðar á stórhvelum geti uppfyllt markmið laga um velferð dýra,“ segir enn fremur.

„MAST telur að aflífun á hluta stórhvela við veiðar á Íslandi hafi tekið of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra. Stofnunin telur hins vegar að við veiðarnar hafi verið beitt bestu þekktu aðferðum miðað við þær aðstæður sem þessar veiðar eru stundaðar við og því hafi ákvæði um veiðar í lögum um velferð dýra ekki verið brotin.

MAST mun fela fagráði um velferð dýra að fara yfir fyrirliggjandi gögn og meta hvort veiðar á stórhvelum geti yfir höfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra. Ef slíkt er talið mögulegt, þurfa stjórnvöld að setja reglugerð um framkvæmd veiðanna og lágmarkskröfur við þær.“

Nánar má lesa um þetta á vef MAST.