Fjöldi skemmtiferðaskipa og farþegafjöldi slær öll met á þessu ári. Alls eru áætlaðar 201 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna með 190.784 farþega.

Áætluð fjölgun skipakoma til Faxaflóahafna er því um rúmlega 24% milli ára og fjölgun farþega einnig rúmlega 24%. Árið 2017 voru farþegaskipin 135 talsins og farþegarnir 128.285 og árið 2018 voru skipakomur farþegaskipa 152 talsins og farþegarnir 144.658. Á öllu árinu 2017 komu alls 620 farþegaskip til landsins og farþegafjöldinn var tæplega 401.000 talsins.

Fyrsta í mars

Fyrsta farþegaskipið á þessu ári, Astoria, kemur til Reykjavíkur um miðjan mars með í kringum 550 farþegar og um 280 manns eru í áhöfn. Ástæðan fyrir komu þess á þessum árstíma er áhugi fyrir norðurljósasiglingum. Faxaflóahafnir telja að með norðurljósasiglingum opnist ný tækifæri fyrir innviði landsins sem mikilvægt sé að nýta á skynsamlegan hátt.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að jafnframt hafi orðið sú þróun í farþegaskipakomum til landsins að heildarbrúttótonna stærð þeirra hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2011 og farið úr tæplega 7 milljónum brúttótonna í 12,1 milljónir brúttótonn 2018.  Þar af voru farþegaskipin alls 5,6 milljónir brúttótonna. Aukning heildarbrúttótonna hefur verið hraðari en fjölgun á skipakomum sem leiðir til aukinna tekna Faxaflóahafna. Farþegaskip skila Faxaflóahöfnum nú nálægt um 400 milljónum krónum árlega í tekjur sem er nálægt um 9% af heildartekjum Faxaflóahafna.

7-8 milljarðar 2017

„Það eru margar stoðir undir rekstri Faxaflóahafna og reynslan hefur verið sú að allar stoðirnar lækka ekki á sama tíma en það geta orðið sveiflur á einstökum tekjuþáttum. Nú er það brúttótonnastærðin sem eykur tekjustreymið,“ segir Gísli.

Lengsta farþegaskipið sem kemur til Reykjavíkur í sumar er Queen Mary 2 (345 metrar) og er það lengsta sem komið hefur til Íslands. Á árinu 2017 skiluðu komur farþegaskipa 7 til 8 milljörðum króna í tekjur hér á landi og 300 heilsársstörf urðu til vegna skipanna. Mörg þessara starfa verða til á landsbyggðinni.