Ferskur þorskur í útflutningi hefur aukist um rúm 25% á tveimur árum. Þetta kemur fram við skoðun á tölum fyrir fyrstu 10 mánuði ársins í samanburði við sama tímabil árið 2014, að því er segir á vef Landssambands smábátaeigenda.

Útflutningurinn dreifist á 27 lönd í ár sem er tíu löndum fleira en selt var til árið 2014.  Fjórar þjóðir bera uppi 90% viðskiptanna: Frakkland, Bandaríkin, Bretland og Belgía. Magn til þessara landa hefur tekið nokkrum breytingum á þessum tveimur árum.

Aukning hefur orðið á viðskiptum við Frakkland og Bandaríkin, en hlutdeild Breta og Belga hefur dregist saman.  Hlutur Frakka farið úr 38% í 49% og Bandaríkjanna úr 14% í 17%. Bretland hefur hins vegar fallið úr því að kaupa héðan fimmtung alls fersks þorsks í 14% og samdráttur til Belgíu er úr 17% í 10%.