Neskaupstaður ber en eitt árið höfuð og herðar yfir aðrar hafnir landsins þegar horft er til þeirra hafna þar sem mestum uppsjávarafla er landað, að því er fram kemur á vef Fiskistofu. Alls var landað 665.409 tonnum af uppsjávarfiski í höfnum landsins árið 2016.

Á síðasta ári var landað í Neskaupstað rúmum 163 þúsund tonnum af uppsjávarfiski. Hlutur Neskaupstaðar í löndun á síðasta ári er 24,6%. Það er reyndar nokkuð mikill samdráttur milli ára í tonnum en 2015 var landað rúmum 200 þúsund tonnum af uppsjávarafla í Neskaupstað en hlutur hafnarinnar var þá 19,9%.

Sú höfn sem kemur næst er Vestmannaeyjar með tæp 110 þúsund tonn eða 16,6% af heildaruppsjávarafla sem landað var í íslenskum höfnum á síðasta ári.

Neskaupstaður er einnig með stærstan hluta af þeirri síld sem lönduð var hér á landi eða 27,4% (36 þúsund tonn) en Vestmannaeyjar koma næst með 18,5% og Hornafjörður með 11,4%.

Það kemur heldur ekki á óvart að Neskaupstaður trónir einnig á toppnum þegar horft er til löndunar á makríl en í Neskaupstað var landað 42.647 tonnum í fyrra eða 23,3% af makríl sem landað var í íslenskum höfnum. Skammt á eftir koma Vestmannaeyjar með 33.022 tonn (18,0%) og Vopnafjörður með 22.620 tonn (12,4 %).