Það eru ekki ný tíðindi að Landhelgisgæslan þurfi að brúa upp í göt í fjárheimildum til stofnunarinnar með annað hvort niðurskurði eða með því að afla sérstekna. Á yfirstandandi ári er ljóst að sextíu milljóna gat þarf að fylla vegna breytinga á fjáraukalögum fyrir árið 2017 sem gerðar voru á síðustu stundu. Lagði Landhelgisgæslan til að þyrlan TF-SYN, yrði leigð erlendis. Þessi leið var þó slegin út af borðinu.
TF-SYN er sú eina af þyrlunum þremur sem ekki nýtist til leitar og björgunar á sjó í myrkri. Útleiga á henni hefði því verið illskásti kosturinn til að afla sértekna. Gæslan hefur áður þurft að leigja frá sér þyrlu í þeim tilgangi að afla tekna.
Ekki er enn frágengið hvernig stoppað verður upp í þetta sextíu milljóna króna gat, þ.e.a.s. hvort fjárheimildir til Landhelgisgæslunnar verði auknar sem þessu nemur eða hvort stofnunin þurfi að leita annarra ráða.
„Okkur leggst alltaf eitthvað til. Í Hafréttarsáttmálanum er hverju strandríki skylt að sinna leit og björgun við sjófarendur og það gerum við án þess að taka greiðslu fyrir,“ segir Ásgrímur.
Annað gildir þó um leit og björgun á landi. Sá þáttur hefur aukist talsvert á undanförnum árum, ekki síst með auknum ferðalögum erlendra ferðamanna um landið. Evrópskir ferðamenn eru flestir sjúkratryggðir í sínu landi af stofnunum eins og við þekkjum sem Sjúkratryggingar Íslands. Samningur er á milli Evrópulandanna í þessum efnum.
Fyrir tveimur árum höfðu Sjúkratryggingar Íslands samband við Landhelgisgæsluna og buðust til aðstoða hana við að innheimta kostnað við sjúkraflutninga vegna ferðamanna af Evrópska efnahagssvæðinu aftur í tímann. Fyrir rúmu ári fékk Landhelgisgæslan þannig greiddar frá evrópskum sjúkratryggingastofnunum á fjórða tug milljóna króna. Svo háar upphæðir eru þó ekki framundan því þetta náði yfir sjúkraflug fjögurra ára aftur í tímann.