Skömmu fyrir jól voru samþykkt lög í Chile um fiskveiðistjórnun sem færa fjórum stórum einkareknum útgerðum ráðstöfun á 92% veiðikvótans til næstu 20 ára.
Í frétt á vefnum seafoodsource.com segir að tilgangur laganna sé að stemma stigu við gengdarlausri ofveiði á hestamakríl sem hafi leikið stofninn afar grátt. Nú sé stefnt að því að aðlaga veiðarnar vísindalegri ráðgjöf og gera þær sjálfbærar. Í því skyni er gert að skyldu að hafa staðsetningartæki um borð í öllum fiskiskipum, stórum sem smáum.
Í fréttinni kemur fram að fiskimenn á smærri skipum séu afar óánægðir með það hversu miklum hluta kvótans sé úthlutað til örfárra stórútgerða og finnst freklega gengið á sinn hlut.