Línuskipið Fjölnir GK 157 hefur verið í slippnum í Reykjavík að undanförnu eftir nokkurra mánaða legu þar áður í Reykjavíkurhöfn. Skipið var í eigu Vísis hf. í Grindavík en hefur nú verið selt til Noregs og heitir Max.
Fjölnir var smíðaður í Noregi 1968 og hét Skrolsvik þegar hann var keyptur til Skagastrandar 1970. Þar fékk hann nafnið Örvar HU 14 og í framhaldinu hét hann Örvar BA og Rifsnes SH. Vísir hf. keypti hann af Hraðfrystihúsi Hellissands þegar fyrirtækið fékk nýtt Rifsnes SH og fékk báturinn þá nafnið Ocean Breeze og var gerður út í Kanada. Hann var lengdur um níu metra í Póllandi og íbúðir innréttaðar undir brúnni og kom þannig aftur til Grindavíkur í lok árs 2015.