Krókaaflamarksbáturinn Fjölnir GK hefur verið að gera það gott að undanförnu og skipstjórarnir Júlíus Magnús Sigurðsson og Kristinn Arnberg Kristinsson eru ánægðir með veiðina. Hjá þeim kom fram að þeir Fjölnismenn hefðu náð 1.000 tonna markinu á fiskveiðiárinu síðastliðinn fimmtudag þannig að það væri full ástæða til að gleðjast yfir aflabrögðunum.
Júlíus Magnús greindi frá því í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar að Fjölnir hefði farið í slipp síðastliðinn föstudag vegna lítilsháttar skemmda sem urðu í óveðrinu á dögunum. „Það tekur lítinn tíma að lagfæra þetta og báturinn mun fara niður á fimmtudaginn. Það hefur gengið vel hjá okkur núna í langan tíma. Veiðin hefur verið jöfn og góð. Við höfum gjarnan verið að fá 9-14 tonn í lögn og höfum verið að koma í land með um 12 tonn í róðri. Þörf hefur verið á að draga úr þorskveiði og við höfum lagt áherslu á ýsuna. Það hefur gengið sæmilega en staðreyndin er sú að það virðist alls staðar vera þorskur. Það hefur ekki klikkað róður hjá okkur frá áramótum. Fiskurinn sem veiðist er fallegur og virðist vel haldinn þrátt fyrir að ekki hafi verið mikið um loðnuna á okkar miðum. Spurningin er hve lengi fiskurinn stoppar upp við landið ef æti er lítið,” sagði Júlíus Magnús.