Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ gagnrýndi álagningu veiðigjaldanna í setningarræðu sinni á aðalfundi samtakanna í dag. Hann sagði að sýnt hefði verið fram á að í mörgum tilvikum næmi skattlagningin meiru en öllum hagnaði einstakra fyrirtækja.

Adolf sagði að reynt hefði verið að sannfæra þá sem fara með hið pólitíska vald með rökum og gögnum, án árangurs.

„Fjölmörg fyrirtæki munu ekki rísa undir gjaldtökunni og þau sem lifa verða löskuð. Fjárfestingar, þróunarstarf og nýsköpun dregst saman og fyrirtæki sem byggja afkomu og rekstur sinn á starfssemi sjávarútvegsfyrirtækja veikjast. Hér um sannkallaðan landsbyggðarskatt að ræða þar sem meginstarfsemi sjávarútvegsins er utan höfuðborgarsvæðisins."

Undir lok ræðunnar sagði formaður LÍÚ: „Ég skora á atvinnuvegaráðherra að hlusta á þau rök sem fram hafa verið færð af okkar hálfu og annarra og beita sér fyrir endurskoðun laganna um veiðigjöld til að forða því tjóni sem við blasir."