Fjölmennasta útskrift Fisktækniskóla Íslands frá stofnun skólans fór fram í síðustu viku. Alls luku 53 nemendur formlegu námi við skólann á vorönn. Þá eru ótaldir sjö nemendur sem útskrifuðust fyrr í þessum mánuði sem vinnslutæknar og níu nemendur sem luku námi í fiskeldistækni á Bíldudal.
Í útskriftarhópnum voru fimm nemendur sem útskrifuðust úr veiðarfæratækni (áður netagerð), en skólinn sinnir kennslu faggreina í veiðarfæratækni sem er löggild iðngrein. Einnig hófst á ný kennsla í smáskipanámi sem Fisktækniskólinn hafði áður kennt um árabil. Vegna uppfærslu á námskrá hafði verið nokkurt hlé á því að skólinn hafi getað boðið uppá það nám.
Nú eru 10 ár frá því að skólinn fékk starfsleyfi sem framhaldsskóli og hafa um fjögur hundruð nemendur lokið formlegu námi frá skólanum á þessum tíu árum. Fisktækniskólinn býður fjölbreytt tækninám á framhaldsskólastigi þar sem fyrst ber að nefna Fisktæknibraut; tveggja ára hagnýtt nám sem er byggt upp sem önnur hver önn í skóla og hin í vinnustaðanámi. Þá er leitast við að bjóða nemendum upp á val um vinnustað með hliðsjón af áhugasviði hvers og eins t.d. sjómennsku, fiskvinnslu eða fiskeldi.
Fjórar framhaldsbrautir eru í boði undir yfirskriftinni Haftengd auðlindatækni; fiskeldistækni, gæðastjórnun, vinnslutækni og haftengd nýsköpun – Sjávarakademía sem þjálfar frumkvöðla á sviði haftengdrar nýsköpunar og hentar fólki sem hyggst stofna fyrirtæki innan bláa hagkerfisins eða er með viðskiptahugmynd sem það vill þróa. Áhersla er á leiðtogafærni, nýsköpun og markaðsmál.
Alls stunduðu 150 nemendur nám á fimm brautum við skólann síðastliðinn vetur. Fastir starfsmenn voru 11, en auk þeirra var fjöldi verktaka sem sinnti stundakennslu. Kennt var á alls fimm stöðum á landinu auk Grindavíkur, en skólinn hefur frá stofnun haft það að markmiði að námsbrautir skólans séu í boði sem víðast –og þá í samstarfi við fræðsluaðila, stofnanir og fyrirtæki sem sérhæfa sig í veiðum, vinnslu og fiskeldi á hverjum stað.
Opið er fyrir innritun og tekið á móti nýjum umsóknum um skólavist vegna haustannar 2022.