Búist er við því að allt að 70 manns taki þátt í árlegri kynningarferð Hampiðjunnar til Hirtshals í Danmörku þetta árið en líkt og venjulega verður virkni veiðarfæra fyrirtækisins og dótturfélaga kynnt í tilraunatankinum í Nordsjöcenter. Ferðin stendur yfir dagana 3. til 5. desember nk. og búist er við því að erlendir þátttakendur verði um 35 talsins.

Ferðin í tilraunatankinn í Hirtshals hefur verið fastur liður í starfsemi Hampiðjunnar um árabil. Auk kynningar á því hvernig veiðarfærin virka við sem raunverulegastar aðstæður verða haldnir fyrirlestrar um þróun í gerð veiðarfæra og veiðarfæraefna og kynningar á hinum ýmsu framleiðsluvörum sem Hampiðjan og samstarfsaðilar fyrirtækisins bjóða upp á.

,,Að þessu sinni munum við leggja áherslu á að kynna kosti Gloríu flottrollanna okkar, Dynex Quickline lausnina í trollpokunum og síðast en ekki síst notkun flottrollshlera við botntrollsveiðar,“ segir Haraldur Árnason, sölu- og markaðsstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni.

Sjá nánar á vef Hampiðjunnar .