ff
Mokveiði hefur verið hjá Fjólu GK undanfarna daga. Fjóla er 15 tonna krókaaflamarksbátur sem veiðir makríl á handfæri. Um miðja vikuna var báturinn kominn með 150 tonn af makríl og er hann aflahæsti báturinn á handfæraveiðum.
Fiskifréttir fóru í makrílróður með Fjólu í síðustu viku og fylgdust með þessum nýstárlega veiðiskap og ræddu við Davíð Frey Jónsson skipstjóra. Fjóla hefur haldið sig á svæðinu við Reykjanes og Eldey í sumar. Báturinn hefur fengið yfir þrjú tonn í flestum róðrum og yfir 13 tonn á dag þegar best lætur.
Blaðamaður Fiskifrétta lýsir veiðunum þannig meðal annars: „Makríll er sterkur fiskur og stinnur þegar hann kemur inn og kastast með skellum eftir málmrennunum á leiðinni niður í lest. Á meðan mest veiddist var því talsverður hávaði í veiðunum og engu líkara en ég væri staddur innan um spilakassa sem allir gæfu vinning á sama tíma og að það klingdi í krónum!“
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.