Fiskistofa segir ráðuneytið ekki hafa tryggt stofnuninni nægilegt fé til að reka eða uppfæra appið. Ýmis vandkvæði hafi komið í ljós við notkun þess.

Fiskistofa segir sér ekki skylt að standa straum af þeim kostnaði sem fellur til við skil á upplýsingum sem skipstjórum er skylt að standa skil á. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu þar sem gerð er grein fyrir afstöðu stofnunarinnar til aflaskráningarapps sem tekið verður úr notkun 1. apríl næstkomandi.

Landssamband smábátaeigenda hefur gagnrýnt að Fiskistofa sé með þessu að velta kostnaði við aflaskráninguna yfir á útgerðarmenn.

Fiskistofa segist hins vegar líta á það sem „hluta af eðlilegum rekstrarkostnaði þeirra sem nýta auðlindina að útvega þau tæki og tól sem þarf til að nýta auðlindina með ábyrgum hætti og tryggja eigið öryggi.“

Fiskistofa þróaði fyrir nokkrum árum aflaskráningarapp það sem hefur verið í notkun. Stofnkostnaðurinn við gerð þess nam nærri 16,5 milljónum króna og styrkti ráðuneytið gerð appsins um 10 milljónir. Rekstur og þjónusta hefur síðan kostað Fiskistofu rúmar 11 milljónir á árunum 2019-2022 og auk þess hefur hýsing kostað 2,5 milljónir.

Flækjustigið vanmetið

„Verkefnið var mjög vanmetið í umfangi og flækjustigi. Appið hefur reynst erfitt í uppfærslu, óþarflega flókið í notkun og önnur vandkvæði hafa komið í ljós við notkun appsins. Þá uppfyllir appið hvorki tæknilegar kröfur né kröfur varðandi notendaviðmót. Ekki hefur verið mögulegt að uppfæra appið til samræmis við breytt regluverk sem veldur því að appið uppfyllir ekki lengur skilyrði um skráningu afla.“

Óhjákvæmilegt hafi því verið að ráðast í vinnu við að endursmíða appið en Fiskistofa segist ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til þess, þar sem fjárveitingar til stofnunarinnar geri ekki ráð fyrir þeirri vinnu og heldur ekki til reksturs appsins.

Fiskistofa hafi hins vegar sett upp almenna vefþjónustu til stafrænna skila á aflaupplýsingum og kóði Fiskistofuappsins sé einnig opinn fyrir þá sem vildu þróa nýtt app.

„Eitt fyrirtæki hefur tilkynnt opnun á aflaskráningarappi innan skamms tíma auk þess sem fleiri aðilar hafa sett sig í samband við Fiskistofu og sýnt áhuga á þróun aflaskráningarapps. Trackwell er þó eini aðilinn sem lokið hefur þeirri þróun,“ segir ennfremur.

Stofnunin sé þó ekki að úthýsa afladagbókarskilum né eftirliti með þeim til einkafyrirtækja, heldur einungis að hætta að útvega formið til að skila aflaupplýsingum.

Fiskistofa segir að öllum skipstjórum sem stunda veiðar í atvinnuskyni sé skylt að halda afladagbækur: „Upplýsingarnar sem fást úr þeim eru nýttar í vísindalegum tilgangi fyrir Hafrannsóknastofnun, sem eftirlitsgögn fyrir Fiskistofu og Landhelgisgæslu og til annarra verkefna sem varða stjórnun fiskveiða.“