Hafrannsóknastofnun fékk í dag afhentan nýjan fjarstýrðan kafbát í þeim tilgangi að auka möguleika til rannsókna í fjörðum og flóum umhverfis landið og gera þeim betri skil en tæki af þessu tagi hafa verið nefnd djúpkannar til að forðast samanburð við stærri og mannaða kafbáta.

Um er að ræða fjarstýrðan djúpkanna af gerðinni Revolution sem kanadíska fyrirtækið Deep Trekker framleiðir. Djúpkanninn er einn sá tæknilegasti sinnar tegundar hér á landi en hann er sérlega vel útbúin búnaði sem hentar verkefnum stofnunarinnar. Hann er búinn 4K upptökuvél, tveimur laserum og fjórum led-ljósum og mun safna myndefni af hafsbotni. Myndefnið verður notað við ýmsar rannsóknir, til dæmis kortlagningu búsvæða, skráningar á lífríki og botngerð, mat á áhrifum og margt fleira. Griparmur fylgir með sem veitir möguleika á söfnun sýna. Með þessu tæki opnast margir nýir möguleikar sem leiða til aukinnar þekkingar á grunnsævi í kringum landið.

6 klst rafhlaða

Djúpkanninn er einungis 26 kg á þyngd, kemst á 300 metra dýpi og er knúinn af sex seguldrifnum skrúfum sem ráða við allt að 4 hnúta straum. Hann gengur fyrir tveimur rafhlöðum sem duga í allt að 6 klst en auk þess var keyptur búnaður sem beintengir bátinn við aflgjafa á yfirborðinu svo notkunartími takmarkast aðeins af aðstæðum tengdum ytri aflgjafa.

Mynd tekin var með sambærilegum djúpkanna.
Mynd tekin var með sambærilegum djúpkanna.

Valdemar Karl Kristinsson, verkefnastjóri hjá Slippnum Akureyri, sem er umboðsaðili Deep Trekker á Íslandi, staðfestir að þessi kafbátur sé í fremstu röð þegar kemur að gæðum og tæknilegum eiginleikum. Sambærilegir kafbátar hafa þegar sannað gildi sitt hjá hafnaryfirvöldum, strandgæslum og björgunarsveitum vestanhafs.

Þá fylgdi með honum USBL staðsetningartæki svo hægt sé að forrita fyrirfram ákveðnar siglingaleiðir í eftirlitsferðum þegar skanna á sjávarbotn en sónar af gerðinni Oculus MT1200d frá Bluprint Subsea er á bátnum.