Royal Greenland hefur sótt sér 220 milljónir bandaríkjadala, um 27 milljarða ÍSK, með skuldabréfaútgáfu til bandarískra einkaaðila meðal annars til að fjármagna smíðar á tveimur nýjum togurum og landvinnslu á bolfiski í Grænlandi og skelfiski í Kanada.

Royal Greenland, sem er í eigu grænlensku landstjórnarinnar, er að endurnýja togarana Sisimiut og Qaqqatsiaq, sem smíðaðir voru 2002 og 1992 í Noregi, með tveimur nýsmíðum sem verða afhentar á þessu ári frá skipasmíðastöðinni í Astilleros de Murueta í Bilbao á Spáni. Samtals nemur fjárfestingin um 105 milljónum dollara, 12,8 milljörðum ÍSK.

100% nýting

Royal Greenland gerir út 15 skip og er stærsti framleiðandi kaldsjávarrækju í heiminum. Hjá fyrirtækinu starfa um 2.000 manns og það rekur 36 landvinnslur. Royal Greenland hefur sótt sér fjármögnun til einkaaðila í Bandaríkjunum með skuldabréfaútgáfu síðastliðin níu ár en þetta er stærsta skuldabréfaútgáfan í sögu fyrirtækisins.

Nýr Sisimiut verður 82,65 metra langur og 17 metra breiður og verður gerður út til veiða á þorski og grálúðu. Hann verður með fiskmjöls- og lýsisverksmiðju og með því verður stefnt á 100% nýtingu hráefnisins sem var ekki nema um 30% í gamla Sisimiut.

Avataq, sem leysir Qaqqatsiaq af hólmi, verður 83 metrar á lengd og 18 metrar á breidd og þar með stærsti togarinn í flota Grænlendinga. Hann er gerður fyrir veiðar með þremur trollum og fer á grálúðu- og rækjuveiðar.

Royal Greenland er einnig að opna nýja vinnslu í Sisimiut á þessu ári sem verður rekin í samstarfi við sjómenn á staðnum sem skaffa vinnslunni einnig hráefni. Þar verða aðallega unnin þorskflök eins og gert er einnig í vinnslum fyrirtækisins í Qasigiannguit, Kangaatsiaq, Maniitsoq og Paamiut.