Landsbankinn greinir frá því að fjárfesting í fiskveiðum hafi aukist úr 12,7 milljörðum króna árið 2016 upp í 25,1 milljarða árið 2017. Þetta er aukning upp á 12,3 milljarða milli ára, eða 97 prósenta aukning.

„Gögn Hagstofunnar ná aftur til ársins 1990,“ segir í nýrri Hagsjá Landsbankans . „Á því tímabili sem liðið er síðan hefur fjárfesting í fiskveiðum ekki áður mælst jafn mikil eins og í fyrra.“

Í Hagsjánni segir að ýmsir liðir standi á bak við aukningu atvinnuvegafjárfestingar án stóriðju hér á landi, en langveigamesta breytingin hafi verið í fiskveiðum.

„Svigrúm fyrirtækja til að auka fjárfestingu sína er enn töluvert. Eiginfjárstaða fyrirtækja hefur sjaldan eða aldrei verið betri og skuldsetning í hlutfalli við undirliggjandi rekstur gefur svigrúm til frekari skuldsetningar.“